Thursday, June 28, 2007

9. kafli

Þetta var kannski ekki fyllilega sanngjarnt. En stundum borgaði sig heldur engan veginn að vera sanngjarn. Hann hafði hugleitt þetta fram og til baka áður en konan hans vaknaði. Hann gat ekki hugsað sér að viðurkenna verknað sinn, en að sama skapi var hann staðráðinn í að ýta þessu leiðindarmáli hér með frá sér. Hún hafði leyst þetta fyrir hann. Lagt þetta upp í hendurnar á honum. Hann hafði orðað dílinn, en hún hafði gefið honum tækifæri til þess. Þannig var það. Hann var viljasterkur að eðlisfari. Hann var sigurvegari, það hafði hann oftar en einu sinni sannað, bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Í baksýnisspeglinum sá hann litlu stelpuna sína með dúkkuna í fanginu, rugga sér í takt við lagið í útvarpinu. Hún horfði til hans og hann blikkaði til baka. "Í dag förum við í góðan bíltúr með mömmu og fáum okkur ís. Eigum við að gera það?" Stelpan brosti breitt. Hún elskaði ís.

Honum brá hressilega þegar hann gekk inn í stofu og sá konuna sína sitja þar með manni sem hann kannaðist við úr glugganum í íbúðinni fyrir ofan. Þau voru bæði brosandi og í hrókasamræðum. Það lá greinilega ekki illa á skáldinu. Konan leit upp.
"Sæll elskan. Þetta er nágranni okkar. Þið hafið ekki hist áður, er það?" Maðurinn stóð upp. Hann var allt öðruvísi en hann hafði ímyndað sér. Hann hélt þetta væri eldri maður en þessi var á svipuðu reki og hann. Þeir voru svipað háir en nágranni hans var nokkuð sterkbyggðari. Ljóst hárið stóð úfið út í loftið og hann var með skegg. Hann var klæddur í hettupeysu. Skáldið rétti fram hendi. Í hinni hélt hann á kaffibolla. Það var semsagt búið að hella upp á fyrir hann. Þeir heilsuðust.
"Hvað hérna... " Hann leit óöruggur á konuna sína. "Hvað segiði þá?"
"Hann vinur okkar hérna segir ekki allt gott. Það var víst brotist inn til hans um hátíðirnar. Hann bankaði upp á til að fá kaffilánið endurgreitt. Ég hellti bara upp á." Litla stelpan hafði stokkið beina leið upp í kjöltuna á mömmu sinni þegar þau komu inn. Skáldið settist aftur í sófann og heilsaði henni brosandi. Hún brosti á móti og horfði á hann stórum augum. Ósjálfrátt kipptist hann við, gekk að barninu og dró hana úr sófanum. "Elskan mín. Nú skalt þú bara fara upp að leika. Gefðu dúkkunni að borða eða eitthvað. Hún er örugglega svöng."
"Mig langar að vera hér." Hún reif sig lausa en í stað þess að fara aftur til konunar gekk hún til nágrannans. Því næst skreið hún upp í kjöltuna á honum og tók til við að strjúka blíðlega skeggið hans.
"Hvað segirðu... var brotist inn?"
"Já. Ekkert tekið samt. Bara ruslað til. Ég þáði kaffið, áður en ég hendist í að taka til."
"Ég bauðst til að hjálpa honum," sagði konan hans. "En hann afþakkaði." Hvaða leikur var þetta? Hvað var hún að spá? Hvað í ósköpunum var að gerast? Og barnið sitjandi þarna? Hvaða helvítis rugl var þetta eiginlega? Skáldið stóð skyndilega upp og færði barnið til mömmu sinnar.
"Jæja. Ég ætla að drífa mig. Ég þakka kærlega fyrir kaffið." Hann gekk að garðhurðinni og opnaði. "Kannski eitt enn." Hann fór í vasann. "Ekki væruð þið til í að láta eftir mér smá vitleysu?"
"Það fer nú kannski eftir hvaða vitleysa það er," sagði konan hlæjandi. Hann dró upp myndavél.
"Ekki má ég taka mynd af ykkur? Þetta er ein af mörgum tiktúrum í mér. Taka myndir af fólki sem ég hitti. Ef þið eruð á móti því skil ég það vel."
"Ég er nú ekkert sérstaklega..."
"Auðvitað máttu það," greip konan hans fram í.
Þau stilltu sér upp í rauða sófanum og nágranninn smellti af.
"Þakka ykkur fyrir. Við sjáumst síðar," sagði hann, blikkaði til litlu stúlkunnar brosandi og fór.

"Hvað var þetta? Af hverju bauðstu honum hingað inn?"
"Við gerðum díl. Ég lofaði að segja ekki frá því sem þú gerðir. En þú bannaðir mér ekki að vera almennileg við hann." Hún brosti til hans eins og ekkert væri.
"En... þú leyfðir honum að taka mynd af okkur! Mynd! Af hverju í ósköpunum var hann að taka mynd?"
"Eins og hann sagði sjálfur: Hann er fullur af tiktúrum. Mér finnst hann svolítið skemmtilegur." Hún gekk að glugganum og horfði á eftir honum. "Jæja. Ég ætla í sturtu." Hún kyssti hann á kinnina og fór upp. Það heyrðist vélræn rödd í eldhúsinu. "Ég elska þig." Dóttirin var farin að leika sér með dúkkuna.

No comments: