Thursday, June 28, 2007

14. kafli

Það var vonlaust að sofa með krakkann í rúminu. Sú stutta tók svo mikið pláss og barðist með höndum og fótum fyrir því, jafn steinsofandi og hún var þar sem hún lá. Hann vildi ólmur að hún svæfi hjá þeim um nóttina. Hvernig hann faðmaði dóttur sína fast að sér þegar þær komu heim, og svo þetta, að vilja hafa hana upp í, það var óvenjulegt, en þó ekki það eina sem vakti athygli hennar. Allt fas hans bar vott um einhverja taugaveiklun og samt reyndi hann sem mest hann gat að láta líta út eins og allt væri eðlilegt og með felldu. Hún hafði spurt hvort ekki væri allt í lagi og hann brugðist illa við, sagt henni að hætta að spyrja endalaust þessarar spurningar. Það væri allt í lagi. Punktur.

Svo var það þessi saga um að hann hefði rekist á skáldið og boðið honum í mat. Eins mikið og hún vildi trúa því, þá var eitthvað skrýtið við það hvernig hann sagði frá. Hann hljómaði rétt eins og það væri honum þvert um geð að fá hann í mat, eins og álit hans á skáldinu hefði ekkert breyst, nema síður væri. Samt bauð hann honum að borða með þeim á gamlárskvöld, þegar þau ætluðu að hafa það huggulegt saman. Hún lét þó kyrrt liggja því hún var þreytt og nennti ekki að standa í rifrildi út af einhverju bulli.

Hún reis upp, tók dóttur sína í fangið og færði hana yfir í sitt rúm. Ef hún ætlaði sjálf að fá einhvern nætursvefn kom ekki annað til greina. Stelpan rumskaði aðeins en þegar hún hvíslaði: "Nú ferðu í þitt rúm," mótmælti hún ekki og hélt áfram að sofa.

Hún ákvað að fá sér að drekka og gekk niður í eldhús. Kveikti ekki ljós, birtan af jólatréseríunni var svo falleg þarna í stofunni. Hún hellti sér í glas og gekk því næst að trénu. Horfði í kringum sig. Þetta var fallegt hús. Það var elskulegur og góður eiginmaður sem lá uppi í herbergi. Svona sýndi hann henni hvað hann elskaði hana heitt. Þetta kunni hann. Og allt umstangið, mitt í öllu amstrinu, að koma þessu í það horf sem hann hélt að henni myndi líka. Hún flissaði þegar hún hugsaði um svefnherbergið sem átti að vera eins og myndirnar í blaðinu, en var það alls ekki. Og svipurinn á honum þegar hann beið eftir viðbrögðum frá henni. Allt þetta hafði hann gert fyrir hana. Hélt öllu leyndu til að koma henni á óvart. Hvað hún elskaði hann nú mikið, þrátt fyrir hvað hann gat verið erfiður.

Hún varð vör við hreyfingu í garðinum og þar brá fyrir örlitlu ljósi. Hún gekk að glugganum og horfði út í myrkrið. Í jaðrinum stóð skáldið og reykti. Hann horfði beint í augu hennar. Hvað í ósköpunum var hann að gera þarna um miðja nótt? Ólíkt manni sínum hafði henni aldrei fundist neitt undarlegt við þennan náunga. Hann var sérstakur, en á skemmtilegan hátt. Sú staðreynd að hann var skáld og skrifaði fannst henni spennandi. Hún opnaði út til hans og hélt sloppnum þétt að sér því úti var kalt.
"Sæl vertu."
"Hæ. Þú stendur hér um miðja nótt. Ef þú ætlaðir að njósna um okkur þá er þetta nú ekki rétti tíminn." Hún brosti til hans. "Eða ætlaðirðu kannski að brjótast inn í húsið okkar?"
"Kannski," svaraði hann. "Kannski stóð til að stela einhverju sem ykkur er kært. En þú ert búinn að skemma það með því að birtast hér." Hann brosti til baka og hélt áfram. "Ég gat ekki sofið. Er að vinna í verki sem heldur fyrir mér vöku. Þá finnst mér gott að fá mér ferskt loft." Hann veifaði rettunni og hló. "Og tala við vini mína hér í garðinum. Grjótið sem eitt sinn var andlit, en er hér ekki lengur. Ég læt sem það hafi ekki verið mölvað í burtu. Hvað ert þú að gera á fótum?" Hún sagði honum frá spörkunum í dóttur sinni og bætti því að maðurinn hefði endilega viljað hafa hana upp í. Hún hugsaði sig um stundarkorn en spurði svo: "Þú ert ekkert að fokka í honum, er það nokkuð?" Hann varð alvarlegur og þagði um stund. "Ef einhver er að fokka í manninum þínum, þá er það hann sjálfur. Hann er sjálfum sér verstur." Hún vissi ekki almennilega hvað hann átti við. Henni var orðið kalt af því að standa þarna og bjó sig undir að kveðja og fara undir sæng. "Þú kemur í mat á morgun, ekki satt?" "Jú. Ég verð að gera það. Það er komið að sögulokunum." Enn vissi hún ekki hvað hann var að fara og það hvarflaði að henni að hann væri fullur. "Sögulok?" "Já... þið farið heim fljótlega. Þið ætlið ekkert að setjast hér að, eða hvað?" Hún hló. "Já, þú meinar það. Við komum nú vonandi einhvern tíma aftur." Skáldið henti frá sér sígarettunni. "Best að skrifa nokkrar línur í viðbót og koma sér svo í bælið. Sjáumst á morgun." Hann gekk áleiðis heim til sín. "Við gerum það. Ég hlakka til." Hún lokaði glugganum.

Henni leið skyndilega ekki vel. Fann fyrir ótta þar sem hún stóð og horfði á eftir honum. Þetta var furðulegt samtal, hugsaði hún. Hún lagði glasið á eldhúsbekkinn, hljóp upp í herbergi, skreið undir sæng og hjúfraði sig að hlýjum manni sínum.

No comments: