Thursday, June 28, 2007

6. kafli

Ef hann beit eitthvað í sig var hann ekki fús að sleppa takinu. Hann hafði komist jafn langt og raun bar vitni á mikilli þrjósku og leit á hana sem einn af sínum helstu kostum. Og nú vildi hann komast að því hver þessi rithöfundur var, þetta skáld sem sat fyrir honum. Því þetta hafði hann bitið í sig líka: Honum fannst þessi maður sem sat í glugganum fyrir ofan húsið þeirra sitja um sig og fjölskyldu sína, fylgjast með hverri hreyfingu. Á einhvern undarlegan hátt stóð honum ógn af nágrannanum.

Hann gat engan veginn tengt uppnám dóttur sinnar fyrstu nóttina við þennan mann, samt kenndi hann skáldinu um atvikið. Það hljómaði fáranlega en þannig leið honum. Og þegar konan hans talaði um hve vel sæist inn til þeirra frá eldhúsglugganum, stóð honum ekki á sama. Allar búðir voru að sjálfsögðu lokaðar og því fékk hann að láni hjá tengdó gluggatjöld fyrir gluggana, brún að lit, þykk og þung og í engu samræmi við mínímalískan innanhússtílinn sem hann hafði lagt svo mikla áherslu á að fá í gegn. Hann hafði alls ekki hugsað sér að setja eitthvað fyrir þessa glugga, þeir áttu að fá að njóta sín og hleypa tærri birtunni inn í stofuna. En eins og málum var háttað vildi hann vera viss um að þegar dregið væri fyrir, þá væri hann og fjölskyldan út af fyrir sig og í friði fyrir hnýsnum augum fólks í næstu húsum. Konunni fannst þetta óþarfa fyrirhöfn.

"Ég skil ekki alveg þetta stress," sagði hún. "Þetta er ósköp venjulegur maður sem vinnur heima hjá sér, eins og margir í hans stétt og glugginn hans snýr óvart til okkar. Hann er ekkert að horfa á okkur, enda lítið markvert að sjá." Hann stóð þó fast á sínu og hún leyfði honum að hengja gardínurnar upp.

Hann hringdi í kunningja sinn sem vissi allt. Hann hafði áður leitað til þessa sama manns eftir alls kyns upplýsingum og það hafði aldrei staðið á svari. Að þessu sinni snerist fyrirspurnin um nafnið á kjallarabúanum. Eins og ávallt sagði vinurinn: "Gefðu mér 20 mínútur." Og eins og ávallt hringdi síminn hans 20 mínútum síðar.
"Heyrðu. Ég er með þetta. Get reyndar ekki sagt þér mikið. Ekki á svona skömmum tíma. En ég er með nafnið. Eða... listamannsnafnið alla vega. Gaurinn kallar sig Víxil. Og er semsagt rithöfundur."
"Víxill? Hvaða hálfvitaheiti er það?"
"Ég veit ekki... sosum ekkert asnalegra en margt annað sem maður heyrir nú til dags."
"Og hefur eitthvað verið gefið út eftir hann?"
"Það hafa engin stærri forlög gefið hann út nei. En hann hefur sjálfur verið að senda frá sér efni. Það selst nú eitthvað treglega að mér skilst."
"Hvað er hann að skrifa?"
"Þetta eru víst aðallega hrollvekjur... reyndar ekkert venjulegar hrollvekjur að sagt er. Hann á það víst til að fara yfir strikið. Einhvern tíma stóð meira að segja til að banna verk eftir hann og gera það upptækt. Löggan var komin í málið og allt. En þeir fáu sem þekkja eitthvað til þessa manns segja að hann sé ágætis náungi. Algjört ljúfmenni."

Hann þakkaði fyrir sig og lagði á.

No comments: