Thursday, June 28, 2007

16.kafli

Þau sátu við matarborðið, komin vel á veg með gómsætt kjötið sem hann hafði eytt deginum í að undirbúa og elda. Honum hafði enn sem komið var gengið vel að sína stillingu. En hann sá eftir að hafa komið konunni sinni í uppnám, svona rétt áður en skáldið steig inn til þeirra úr garðinum. Hún var óróleg og öll uppspennt. Hann var að því kominn að draga hana afsíðis og segja henni að taka sig saman í andlitinu, en hann vissi að þá væri hún vís með að brotna endanlega saman svo hann lét það eiga sig. Sjálfum leið honum alls ekki vel, en hann ætlaði ekki að láta það sjást. Andstæðingurinn spilaði leikinn hárrétt frá upphafi og lét eins og ekkert væri. Kom inn í eldhús til hans fyrir matinn, klappaði honum meira að segja á bakið og lofaði lyktina í loftinu. Fíflaðist í barninu sem var athyglinni fegið og skríkti af ánægju. Fullkomlega yfirvegaður. Nú reið á að gera hann ekki tortrygginn, eitt feilspor og hann myndi láta sig hverfa, og það mátti alls ekki gerast. Það var komið að sögulokum, eins og skáldið hafði sjálft orðað það.

Eftir stutta vandræðalega þögn lyfti hann glasi og skálaði. Í glösunum var ekki glundrið sem nágranninn hafði komið með, flaskan hans stóð enn óhreyfð á eldhúsbekknum, og þar fengi hún að vera það sem eftir lifði kvölds. Hann hafði farið í skápinn sinn og valið vín sem honum fannst viðeigandi. Hann ákvað að hefja leikinn.

"Ég las söguna þína. Hún var... athyglisverð."
"Þakka þér fyrir." Skáldið brosti og reyndi að sýnast hógvær. Konan hans leit hins vegar spurnaraugum á hann, enda hafði hann alveg látið vera að segja henni frá bókinni.
"Segðu mér, af hverju átti að banna hana?"
Skáldið þagði um stund. Konan ætlaði að leggja orð í belg, en maðurinn hennar þaggaði niður í henni með hvössu augnarráði.
"Það þekkti einhver húsið á myndinni. Eitthvað fólk sem keypti bókina af mér á bar. Og auðvitað kom í ljós að það var einmitt læknir og kennslukona og börnin þeirra tvö og hundurinn sem þar bjuggu. Og ég nýfluttur í næsta hús."
"Rétt eins og núna. Nema að núna ertu að skrifa um okkur."
Skáldið horfði á hann. Enn jafn yfirvegaður og áður.

"Rétt. Núna er ég að skrifa um ykkur." Konan horfði undrandi á nágrannann og um leið varð hún eins og vonsvikin í framan. Rétt eins og skáldið hefði brugðist henni á einhvern hátt. En við hverju bjóst hún? Þetta var hann búinn að reyna að segja henni. Hann var búinn að vara hana við, en hún hafði hlegið framan í hann og sagt að henni þætti þessi náungi skemmtilegur. Ekki aðeins skemmtilegur. Fyndinn. Hann hélt áfram:
"Og hver á að deyja á hrottafenginn hátt í þeirri sögu? Ég? Konan mín? Dóttir okkar?"
"Ég veit það ekki ennþá," sagði skáldið og brosti. "Ég ætlaði að ákveða það í kvöld."
"Í kvöld eru sögulok," sagði maðurinn lágt og horfði á skáldið sem leit á hann til baka.
"Já. Í kvöld eru sögulok."

Þau þögðu öll um stund, en því næst fór konan að taka saman diskana. Staflaði þeim rólega saman og hnífapörunum á þann efsta. Um leið notaði stelpan tækifærið og stökk frá borðinu, inn í stofu þar sem dótið hennar lá enn á gólfinu.
"Á ég ekki að hjálpa þér?” Gesturinn gerði sig líklegan til að rísa úr sætinu.
"Nei. Sittu kyrr," sagði konan og brosti. "Ég ætla að hella upp á kaffi." Maðurinn reyndi að ná augnsambandi við hana, þar sem hún gekk inn í eldhús en hún virti hann ekki viðlits. Svipur hennar var ískaldur.

"Þetta var mjög ljúffengt. Ég þakka kærlega fyrir mig," sagði nágranninn og dæsti.
"Verði þér að góðu."
"Ljúffengt vín. Miklu betra en það sem ég kom með. Ég kann ekki að velja, hef ekkert vit á þessu."
"Munurinn liggur í verðinu," svaraði maðurinn. "Við höfum efni á góðu víni, eins og þú getur líklega ímyndað þér." Hann varð var við konuna sína, þar sem hún gekk hægum skrefum fyrir aftan skáldið. Nú var hann að komast í ham. Hann hélt áfram: "Þú ímyndar þér mjög margt um okkur, þar sem þú situr og fylgist með okkur. Er ekki svo? Ímyndar þér hluti og setur þá á blað. Ekki satt?"

Skáldið tók eftir henni þar sem hún stóð þétt upp við bak hans. Hann ætlaði að líta við, bjóst líklega við því að hún héldi á bollum fyrir kaffið. Af svipnum að dæma átti hann ekki von á steikarhnífnum sem hún stakk á kaf í bakið á honum. Hann leit upp til hennar skilningsvana. "Þetta er... þetta er bara skáldsaga," reyndi hann að stynja krampakenndri röddu. Blóð byrjaði að vella úr öðru munnvikinu. Konan dró hnífinn úr sárinu.
"Þú átt ekkert að vera að skrifa einhvern helvítis skáldskap um okkur," hvæsti hún og rak hnífinn af öllu afli á kaf í brjóstkassann á honum. Við höggið féll nágranninn aftur fyrir sig á stólnum og skall í gólfið. Konan fylgdi á eftir, reif aftur til sín hnífinn, eingöngu til þess að setjast ofan á manninn, þar sem hann lá og láta hverja stunguna af annarri dynja á lífvana skrokknum. Loks hætti hún, skildi hnífinn eftir í blóðrauðu flaginu og stóð upp, móð af áreynslu.

Hvorugt þeirra hafði hugsað til stelpunnar sem stóð þögul og horfði á slátrunina. Barnið gekk rólega að skáldinu. Hún kraup hjá því og strauk því mjúklega um skeggið.

No comments: