Thursday, June 28, 2007

3. kafli

Þau sátu í rauðu leðursófasetti á neðri hæðinni og drukku hvítvín. Barnið var komið í rúmið, sú stutta hafði ekki rumskað þegar hún var færð þangað upp og háttuð. Konan hafði ekki sagt mikið, en hann skrifaði það á hve hissa hún hlaut að vera. Hann hafði náð henni. Það var fátt betra en plott sem gekk fullkomlega upp. Hann brosti til hennar, nú var kominn tími á frekari viðbrögð, eitthvað aðeins meira en gapandi undrun.
"Jæja," sagði hann. "Og hvernig líst þér á? Ertu í sjokki?"
Hún brosti.
"Það má eiginlega segja það."
Hún leit í kringum sig. Stofan tók yfir hæðina en í einu horninu var búið að afmarka eldhús með hálfveggjum og í miðju þess var falleg eyja fyrir hvers kyns matseld. Henni fannst eins og hún hefði séð þetta einhvers staðar áður en kom ekki fyrir sig hvar.
"Þetta er vissulega fallegt hús. Var þetta svona?"
Hann hló.
"Nei vina mín. Þetta var sko ekki svona. Það er ýmislegt búið að ganga á, búið að brjóta niður og breyta. Þetta rými hérna var upphaflega 4 herbergi. Mjög þröngt og lokað. Mjög ljótt. Ég fékk arkitekt til að breyta þessu. Lét hann hafa myndir sem sýndu hvernig ég hafði hugsað mér þetta. Til að gera þetta töff og meira í okkar stíl."
Hann kláraði úr hvítvínsglasinu.
"Og nú er bara það besta eftir. Ég get ekki beðið með það lengur. Komdu upp, sjáðu hvað ég er búinn að gera."
Hún brosti yfir ákafanum í honum.
"Þú búinn að gera? Gerðir þú eitthvað?"
"Nei, ég meina... lét gera. Fyrir þig."
Hann leiddi hana upp stigann, hljóp við fót, svo spenntur að hann var að springa. Fyrr um kvöldið, þegar þau fóru með dótturina upp í herbergið sem ætlað var henni, var konan hans næstum búin að opna lokaða hurð á ganginum. Honum tókst að stöðva hana í tæka tíð. Þar fyrir innan leyndist svefnherbergi þeirra sem yrði opinbert með meira pompi og prakt. Hvítvínsflaskan var tóm og nú var sú stund runnin upp.

Gler, gler, gler, allt í gleri. Hún stóð og horfði. Á gler. Meira að segja rúmið var gegnsætt. "Er það líka úr gleri?" spurði hún.
"Nei nei. Engar áhyggjur. Þetta er plast."
Hann horfði á hana hróðugur. "Þemað hérna inni er alveg eins og í blaðinu. Manstu, blaðið sem þú varst að skoða einhvern tíma. Finnski gaurinn. Þú varst svo hrifinn af þessu. Ég tók greinina þegar þú sást ekki til og sendi arkitektinum hana. Sagði honum að ég vildi hafa þetta nákvæmlega svona!"
Hann hló. En eins mikið og hún hafði talað um þetta helvítis glerherbergi í blaðinu þá virtist hún ekki alveg í skýjunum. Ekki jafn yfir sig glöð og hann hafði gert ráð fyrir. Og hún gat fjandakornið ekki verið endalaust hissa. Bara hissa og ekkert annað.
"Hvað? Er þetta ekki alveg eins? Því ef það er eitthvað ekki eins og það á að vera, þá breytum við því á nóinu. Ég fæ einhvern í það á morgun og það verður klárt fyrir jól. Ekki málið! Þetta er nú einu sinni gjöf til þín."
"Nei, veistu, þetta er bara held ég... alveg eins. Nákvæmlega eins. Nema..."
"Nema hvað?"
"Nema herbergið sjálft. Það er svolítið skrýtið að sjá þetta gler hérna inni. Svolítið eins og að troða manneskju í alltof þröng og lítil föt... þetta er fallegt herbergi."
"En alltof lítið? Djöfullinn. Ég var einmitt að velta fyrir mér að brjóta þennan vegg hér til að stækka það."
Hún gekk til hans og faðmaði hann.
"Elskan. Þetta er bara rugl í mér. Maður þarf bara að venjast þessu."
"Venjast þessu? Þú veist ekki einu sinni hvernig þetta var áður, svo ég sé ekki alveg hverju þú þarft að venjast."
"Þetta er ótrúlega flott. Og alveg eins og í blaðinu. Takk fyrir mig. Það er ekkert smá sem þú ert búinn að hafa fyrir þessu, ég veit það. Og þetta er alveg æðislegt. Fyrirgefðu ef ég er eitthvað leiðinleg. Ég er bara soldið búin á því eftir ferðalagið. Og hvítvínið slökkti endanlega á mér. Ég er samt alveg til í að prófa hvað þetta fína plastrúm þolir áður en ég lognast út af."
Hún kyssti hann. Hvítvínið hafði síður en svo slökkt á honum og hann ýtti henni á tempur dýnuna á gegnsæju fletinu og lagðist ofan á hana. Þau voru komin hálfa leið með að rífa hvort annað úr fötunum þegar skyndilega heyrðist hávært öskur úr barnaherberginu.

Þau ruku framúr og inn til stelpunnar. Barnið stóð í rúminu sínu og grét.
"Hvað er að ástin mín?"
"Kallinn. Það var kall í glugganum og hann horfði svo grimmilega á mig." Hann gekk út að glugganum sem sneri í sömu átt og stofuglugginn fyrir neðan. Þar var ekkert að sjá. Ósjálfrátt leit hann upp í kjallaraíbúðina. Þar voru öll ljós slökkt og ekkert lífsmark að sjá.
"Þig hefur bara verið að dreyma vina mín. Hér er enginn kall. Kannski að þetta hafi bara verið jólasveinninn."
"Nei. Þetta var ekki jólasveinninn. Þessi kall var vondur."

No comments: