Thursday, June 28, 2007

15. kafli

Hún lagði á borð fyrir fjóra. Nostraði við það, vandaði sig, rétt eins og einhver kæmi á eftir og mældi út nákvæma lengd milli diska, glasa og hnífapara og gæfi henni einkunn. Þannig reyndi hún að stjórna hausnum á sér með litlu smáatriðunum, hugsa um eitthvað einfalt í stað þess að vera föst á þeim undarlega stað sem hún hafði verið á allann daginn. Nú gekk klukkan áleiðis í sex og þau voru öll komin í spariföt. Gesturinn hlaut að vera væntanlegur á hverri stundu. Maðurinn hennar stóð þungt hugsi í eldhúsinu og undirbjó kvöldmáltíðina. Stelpan lék sér í einu stofuhorninu og tuldrið í henni var það eina sem heyrðist. Annars var hljótt í húsinu. Og þessi þögn hafði ríkt frá því þau fóru á fætur, og var í þann veginn að gera útaf við hana.

Um morguninn vakti hann hana með látum, í uppnámi yfir að stelpan var ekki lengur á milli þeirra. Þau ruku bæði inn í herbergi til hennar, þar sem hún lá steinsofandi, og þá fyrst rifjaðist það upp fyrir henni að hún hafði fært hana um nóttina. Hann spurði hana með ásökunartóni í röddinni hvers vegna í ósköpunum hún hefði gert það. Hún sagði sem var, að annars hefði hún ekkert getað sofið. Hann þagði um stund og horfði á barnið þeirra, en faðmaði hana því næst að sér og baðst afsökunar. Útskýrði hegðun sína ekki frekar. Hún skildi það ekki almennilega sjálf, en af einhverjum ástæðum fannst henni ekkert athugavert við að hann skildi láta svona. Eins og það hefði verið ábyrgðarlaust af henni að skilja barnið eftir eitt og óvarið inni hjá sér. Hvers vegna í ósköpunum ætti það ekki að vera í lagi? Hún hristi hausinn yfir vitleysunni.

Svo mundi hún eftir samtalinu við skáldið og aftur læddist að henni þessi óþægilega tilfinning sem klappaði henni á öxlina um nóttina. Hún vildi samt ekki segja neitt sem gat slegið manninn hennar út af laginu. Nógu mikið hafði nágranninn haft áhrif á hann og snúið hlutum á haus, þótt hún færi nú ekki að bætast í þann leik með einhverjar furðulegar hugsanir sem hún gat ekki skilgreint eða útskýrt frekar en hann. Og það ríkti þögn. Hann sagðist alfarið ætla að taka að sér matseldina og hafði verið í eldhúsinu meira og minna yfir daginn. Hún klæddi sig og dóttur þeirra og fór með stelpuna í gönguferð. Sú litla hljóp á undan henni eins og hundur laus við ólina sína, hún fylgdi á eftir utan við sig, og rétt náði að einbeita sér að því að missa ekki sjónar af barninu. Kalt og ferskt loftið var gott en náði ekki að feykja líðaninni á brott.

Hún lauk við að leggja á borð og gekk til hans þar sem hann stóð í eldhúsinu. Hún gat ekki haldið aftur af sér lengur og sagði: "Í nótt, eftir að ég færði stelpuna, fór ég niður til að fá mér að drekka. Og... þá sá ég skáldið úti í garði. Hann stóð þar og reykti og horfði hingað niður á húsið. Ég spjallaði aðeins við hann."
Hann hætti að hræra í potti og horfði á hana. "Og?"
"Hann sagðist vera andvaka yfir sögu sem hann er að skrifa."
"Um okkur," sagði hann eins og hann vissi það fyrir víst.
"Hann sagði það nú ekki."
"Ástin mín. Hann er að skrifa um okkur sögu. Og mig grunar að kvöldið í kvöld séu sögulok." Þetta var það sem skáldið hafði sagt við hana um nóttina. Hvaða sögulok voru þeir báðir að tala um. Sögulok var kannski ekki óþægilegt orð í sjálfu sér, en hvernig það hljómaði bæði hjá skáldinu og nú hjá manninum hennar varð það hættulegt. Hún fór að titra. Réði ekki við það. Hann tók utan um hana og hélt henni þétt að sér. Sefaði hana.
"Ég skil ekki," sagði hún. “Hvað hafið þið eiginlega verið að segja við hvor annann? Ég er hrædd."
Hann sussaði mjúklega á hana. "Þetta verður allt í lagi. Ég er hér til að passa þig og dóttur okkar. Ég er við öllu búinn. Hann mátar mig ekki. Það kemur ekki til greina."
Hún skildi hann ekki, en hún róaðist. Það var hljómur í rödd hans sem hún hafði ekki heyrt áður, og hann var þægilegur og gerði hana örugga.

Það var bankað á stofuhurðina og þau hrukku bæði við. Stelpan hætti að leika og hljóp skríkjandi af gleði í átt að manninum sem stóð fyrir utan. Nágranninn hélt spariklæddur á rauðvínsflösku og brosti til hennar á móti. Hjónin litu hvort á annað. Saman myndu þau vinna þennan leik.

No comments: