Thursday, June 28, 2007

1. kafli

Hann hringdi í verktakann til að athuga hvernig málum miðaði.
"Vel", sagði verktakinn. "Þessir Pólverjar eru alveg ótrúlegir. Eftir að þeir mættu á svæðið hefur þetta rokgengið."
Hann beið með að segja frá því að hann væri kominn til landsins, hefði lent í Keflavík kvöldið áður. Fyrst vildi hann fá mjög nákvæmar upplýsingar um húsið og hversu raunhæft væri að það yrði tilbúið, með öllum þeim breytingum sem hann hafði farið fram á, á tilsettum tíma. Hann spurði um hitt og þetta og fékk svör sem hann ætlaði að sannreyna þegar hann mætti á svæðið skömmu síðar. Ef eitthvað af því sem verktakinn sagði stóðst ekki fengi hann að fjúka. Hann lauk samtalinu með því að segja: "Heyrðu, þetta er flott. Við sjáumst svo bara eftir smá."
"Eftir smá?"
"Já. Ég er á landinu. Er bara rétt ókominn til þín." Svo lagði hann á. Jeppinn ók sem leið lá í gegnum Garðabæ áleiðis í Hafnarfjörð.

Þetta leit nokkurn veginn út eins og um var rætt, engin ástæða að reka neinn. Ekki enn að minnsta kosti. Hann gekk að stóra stofuglugganum og leit út. Þar var ennþá ekkert nema mold og drulla og í jaðri eignarinnar stóð lítil grafa með áföstum höggbor. Þarna var klöpp sem þurfti að mölva. Einhvern tíma, sem allra fyrst, yrði þetta glæsilegur garður.
"Af hverju er enginn sestur upp í skrýmslið og byrjaður að höggva?"
"Það er enn of dimmt. Og svo höfum við fengið kvartanir frá nágrönnum og megum ekki byrja fyrr en eftir 10. Það eru víst ungabörn í grenndinni."
Honum var litið upp í húsið sem stóð fyrir ofan. Þar í kjallaraglugga sat náungi og pikkaði á tölvu. Sá leit upp og þeir horfðust í augu um stund. Því næst leit kjallarabúinn aftur á skjáinn sinn og hélt áfram að skrifa.
"Skyldi helvítið vera að skrifa um mig? Ég má ekki láta mitt fólk vinna í garðinum mínum og höggva í sundur helvítis klöppina svo hann fái frið til að skrifa einhvern óþverra um mig. Honum finnst örugglega lítið til mín koma. Húkir í þessari kjallaraholu og skrifar. Blótar mér í sand og ösku, kallar mig nýríkan skíthæl. Ef hann bara vissi. Ef hann bara vissi..."

Nú styttist óðum í jólin og þá fengi konan að afhjúpa pakkann, þessa veglegu jólagjöf sem hann ætlaði að gefa henni. Ennþá vissi hún ekki neitt. Hún hafði oft talað um hvað það væri gott að hafa sitt eigið afdrep þegar þau dveldu á klakanum. Sú yrði aldeilis hissa. Hann gekk frá glugganum, tók upp símann. Dagurinn var byrjaður og hann hafði ekki meiri tíma í hangs.
"Ég treysti þér fyrir því að allt sé tilbúið þann tuttugasta. Við komum heim þá og brunum beint af vellinum hingað. Þá verðið þið að vera farnir með ykkar dót, búið að þrífa pleisið og mubblur komnar á sinn stað. Er það ekki málið?" Hann klappaði verktakanum á öxlina.
"Jú, það hefst alveg. Ég hef séð það svartara en þetta, við náum þessu alveg á þessum tíma."
"Það er gott. Mjög gott."
Svo var hann rokinn.

2. kafli

Hún var í símanum að spjalla við mömmu sína. Stelpan þeirra hafði átt erfitt flug og það var fyrst núna, þar sem þau óku Reykjanesbrautina að hún lognaðist út af í aftursætinu og lá þar eins og skotin. Konan hans hafði varað hann við að gefa henni of mikinn sykur þegar þau biðu í bisness lunganu á Heathrow, sælgætið myndi pottþétt æsa barnið upp og þau ættu allt flugið eftir. Hann hafði þóst taka tillit til þess, en blikkaði dóttur sína í laumi og gaf henni nýjan og nýjan bita þegar konan sá ekki til.

Örvandi áhrifin létu ekki á sér standa. Stelpan varð eins og andsetin þegar þau höfðu komið sér fyrir í vélinni, gat engan veginn setið kyrr alla leiðina heim, öskraði og gólaði, hoppaði og hljóp um algerlega hamslaus. Á endanum voru þau beðin um að færa sig í laus sæti aftur í almenningi, eftir að einn af bisness klassa farþegunum, sem hugðist nota tímann í undirbúning fyrir mikilvægan fund, kvartaði pent yfir hávaðanum. Hann reyndi eins og hann gat að róa dóttur sína en á endanum var það konan hans sem gafst upp og fór með hana aftar í vélina. Þar voru aðeins tvö sæti laus svo hann sat áfram á sínum stað.

“Hvað sagði mamma þín?” Hann var mest hræddur um að einhver annar en hann myndi klikka og missa út úr sér leyndarmálið. Það yrði svo ömurlegt eftir alla vinnuna sem hann hafði lagt í þetta. Það var einmitt sérstaklega tengdamamma sem væri vís til að klúðra þessu. Hann hafði alvarlega hugleitt að segja henni ekki neitt, en hún var farin að undirbúa heljarinnar VELKOMIN HEIM málsverð svo hann neyddist til að láta hana vita að þau kæmu ekki í mat.
"Allt fínt. Hún er búin að elda einhverja veislumáltíð fyrir okkur."
Gat það verið að kellingarbeyglan hefði misskilið hann? Eða var hún miklu betri plottari en hann hafði grunað? Alla vega var ljóst að ef hún var að elda, yrði sá matur ekki étinn fyrr en sem afgangar daginn eftir.

Í stað þess að aka Reykjanesbrautina áfram til Reykjavíkur beygði hann inn í Hafnarfjarðarbæ. Hann átti von á því að hún myndi spyrja hvert þau væru að fara, en af einhverjum ástæðum sagði hún ekki neitt og horfði út um gluggann eins og ekkert væri sjálfsagðra. Vissi hún eitthvað? Vissi hún allt? Hafði mamma hennar sagt eitthvað? Þau óku loks inn litlu götuna þar sem húsið stóð. Hann lagði bílnum og drap á honum. Þá fyrst var eins og konan rankaði við sér.
"Bíddu... hvar erum við?"
"Heima."
Hún horfði spurnaraugum á hann.
"Þetta er smá svona... fyrirfram jólagjöf til þín. Komdu út. Stelpan sefur, ég ætla að sýna þér gjöfina þína."
Hún var engan veginn að ná því sem hann var að segja. Hún opnaði bílhurðina treglega og elti hann hægt upp tröppurnar að útidyrunum.
"Hvað ertu að gera? Hvað er þetta?"
"Bíddu róleg." Hann dró upp lykil, opnaði hurðina og gekk inn. Hún fylgdi honum varlega.
"Þú ert búin að tala svo oft um okkar eigin stað hér heima. Þannig að ég keypti þetta og lét útbúa það að okkar þörfum. Þetta verður heimilið okkar hér á Íslandi." Konan gapti. Hann hafði sannarlega komið henni í opna skjöldu með útspili sínu.

3. kafli

Þau sátu í rauðu leðursófasetti á neðri hæðinni og drukku hvítvín. Barnið var komið í rúmið, sú stutta hafði ekki rumskað þegar hún var færð þangað upp og háttuð. Konan hafði ekki sagt mikið, en hann skrifaði það á hve hissa hún hlaut að vera. Hann hafði náð henni. Það var fátt betra en plott sem gekk fullkomlega upp. Hann brosti til hennar, nú var kominn tími á frekari viðbrögð, eitthvað aðeins meira en gapandi undrun.
"Jæja," sagði hann. "Og hvernig líst þér á? Ertu í sjokki?"
Hún brosti.
"Það má eiginlega segja það."
Hún leit í kringum sig. Stofan tók yfir hæðina en í einu horninu var búið að afmarka eldhús með hálfveggjum og í miðju þess var falleg eyja fyrir hvers kyns matseld. Henni fannst eins og hún hefði séð þetta einhvers staðar áður en kom ekki fyrir sig hvar.
"Þetta er vissulega fallegt hús. Var þetta svona?"
Hann hló.
"Nei vina mín. Þetta var sko ekki svona. Það er ýmislegt búið að ganga á, búið að brjóta niður og breyta. Þetta rými hérna var upphaflega 4 herbergi. Mjög þröngt og lokað. Mjög ljótt. Ég fékk arkitekt til að breyta þessu. Lét hann hafa myndir sem sýndu hvernig ég hafði hugsað mér þetta. Til að gera þetta töff og meira í okkar stíl."
Hann kláraði úr hvítvínsglasinu.
"Og nú er bara það besta eftir. Ég get ekki beðið með það lengur. Komdu upp, sjáðu hvað ég er búinn að gera."
Hún brosti yfir ákafanum í honum.
"Þú búinn að gera? Gerðir þú eitthvað?"
"Nei, ég meina... lét gera. Fyrir þig."
Hann leiddi hana upp stigann, hljóp við fót, svo spenntur að hann var að springa. Fyrr um kvöldið, þegar þau fóru með dótturina upp í herbergið sem ætlað var henni, var konan hans næstum búin að opna lokaða hurð á ganginum. Honum tókst að stöðva hana í tæka tíð. Þar fyrir innan leyndist svefnherbergi þeirra sem yrði opinbert með meira pompi og prakt. Hvítvínsflaskan var tóm og nú var sú stund runnin upp.

Gler, gler, gler, allt í gleri. Hún stóð og horfði. Á gler. Meira að segja rúmið var gegnsætt. "Er það líka úr gleri?" spurði hún.
"Nei nei. Engar áhyggjur. Þetta er plast."
Hann horfði á hana hróðugur. "Þemað hérna inni er alveg eins og í blaðinu. Manstu, blaðið sem þú varst að skoða einhvern tíma. Finnski gaurinn. Þú varst svo hrifinn af þessu. Ég tók greinina þegar þú sást ekki til og sendi arkitektinum hana. Sagði honum að ég vildi hafa þetta nákvæmlega svona!"
Hann hló. En eins mikið og hún hafði talað um þetta helvítis glerherbergi í blaðinu þá virtist hún ekki alveg í skýjunum. Ekki jafn yfir sig glöð og hann hafði gert ráð fyrir. Og hún gat fjandakornið ekki verið endalaust hissa. Bara hissa og ekkert annað.
"Hvað? Er þetta ekki alveg eins? Því ef það er eitthvað ekki eins og það á að vera, þá breytum við því á nóinu. Ég fæ einhvern í það á morgun og það verður klárt fyrir jól. Ekki málið! Þetta er nú einu sinni gjöf til þín."
"Nei, veistu, þetta er bara held ég... alveg eins. Nákvæmlega eins. Nema..."
"Nema hvað?"
"Nema herbergið sjálft. Það er svolítið skrýtið að sjá þetta gler hérna inni. Svolítið eins og að troða manneskju í alltof þröng og lítil föt... þetta er fallegt herbergi."
"En alltof lítið? Djöfullinn. Ég var einmitt að velta fyrir mér að brjóta þennan vegg hér til að stækka það."
Hún gekk til hans og faðmaði hann.
"Elskan. Þetta er bara rugl í mér. Maður þarf bara að venjast þessu."
"Venjast þessu? Þú veist ekki einu sinni hvernig þetta var áður, svo ég sé ekki alveg hverju þú þarft að venjast."
"Þetta er ótrúlega flott. Og alveg eins og í blaðinu. Takk fyrir mig. Það er ekkert smá sem þú ert búinn að hafa fyrir þessu, ég veit það. Og þetta er alveg æðislegt. Fyrirgefðu ef ég er eitthvað leiðinleg. Ég er bara soldið búin á því eftir ferðalagið. Og hvítvínið slökkti endanlega á mér. Ég er samt alveg til í að prófa hvað þetta fína plastrúm þolir áður en ég lognast út af."
Hún kyssti hann. Hvítvínið hafði síður en svo slökkt á honum og hann ýtti henni á tempur dýnuna á gegnsæju fletinu og lagðist ofan á hana. Þau voru komin hálfa leið með að rífa hvort annað úr fötunum þegar skyndilega heyrðist hávært öskur úr barnaherberginu.

Þau ruku framúr og inn til stelpunnar. Barnið stóð í rúminu sínu og grét.
"Hvað er að ástin mín?"
"Kallinn. Það var kall í glugganum og hann horfði svo grimmilega á mig." Hann gekk út að glugganum sem sneri í sömu átt og stofuglugginn fyrir neðan. Þar var ekkert að sjá. Ósjálfrátt leit hann upp í kjallaraíbúðina. Þar voru öll ljós slökkt og ekkert lífsmark að sjá.
"Þig hefur bara verið að dreyma vina mín. Hér er enginn kall. Kannski að þetta hafi bara verið jólasveinninn."
"Nei. Þetta var ekki jólasveinninn. Þessi kall var vondur."

4. kafli

Það var ekki til kaffi. Á eldhúsbekknum stóð silfurgrá maskína sem átti að hella sjóðheitu og nýmöluðu í bollann hennar, ef hún aðeins ýtti á lítinn takka. En það hafði láðst að kaupa baunir og þrátt fyrir að vel væri liðið á kvöld var hún gjörsamlega að farast úr kaffiþorsta. Maðurinn hennar yrði líklega eitthvað frameftir í vinnunni. Það var ekkert öðruvísi hér en úti. "Það þarf að hafa fyrir því að koma þessu í hús", var hann vanur að segja og hún var fyrir löngu búin að sætta sig við að vera ein heima með stelpuna á kvöldin. Sú stutta svaf uppi. Engin illileg andlit á glugganum að hræða hana nú eins og í martröðinni nóttina áður. Það hafði tekið nokkra stund að róa krakkann, en eftir að þau tóku hana inn til sín og leyfðu henni að liggja á milli, festi hún fljótlega svefn og svaf vært til morguns.

Út um eldhúsgluggann sá hún mann sitja í íbúðinni fyrir ofan garðinn. Hann var greinilega með borð við gluggann, sat þar og virtist vinna á tölvu. Klukkan var orðin dónalega margt, en þessi maður var á fótum. Og hún var jú nýi nágranni hans og gæti kynnt sig um leið og hún fengi lánað kaffi. Þetta tæki enga stund svo hún þurfti ekki að hafa áhyggjur af krakkanum. Hún opnaði hurðina út í garð og gekk yfir freðna moldina. Það var engin dyrabjalla svo hún bankaði. Til dyra kom maður á hennar reki. Ljóshærður með skegg. Þreklega vaxinn.

"Sæll. Hérna... þetta er soldið... ég er nýi nágranni þinn. Bý hérna fyrir neðan."
"Já. Einmitt.”
"Þannig er að ég er bíllaus, dóttir mín er sofnuð og og mig vantar svo kaffi. Ekki geturðu lánað mér í eins og eina lögn?"
Hann sagðist eiga kaffi og bauð henni inn í afar litla en snyrtilega íbúð. Inni var rökkvað, eina ljósið var í eldhúsinu þar sem hann hafði einmitt setið þegar hún kom auga á hann. Á litlu tréborði við gluggann var tölvan sem hann vann á. Úr græjum inni í stofu barst klassísk tónlist á lágum styrk.

Hann fór í hornskápinn til að finna kaffi. Hún gætti þess að líta ekki á skjáinn á tölvunni þótt hana dauðlangaði til þess. Í staðinn var henni litið út um gluggann og sá stofuna sína blasa við. Henni brá.
"Vá. Þú sérð ansi vel inn til okkar."
"Já ég get það, ef ég vil. Þið ættuð kannski að fá ykkur gluggatjöld. Þetta eru stórir gluggar. Fallegur þessi rauði litur á sófasettinu. Er þetta leður?"
"Já, þetta er leður. Held ég. Lítur alla vega þannig út."
"Þetta eru ansi glæsileg híbýli. Ég vinn heima, sit hér við gluggann og hef ekki komist hjá því að sjá hvernig framkvæmdum hefur miðað áfram. Búið að brjóta niður marga veggi. Heilmikil læti."
"Þú hefur vonandi fengið vinnufrið."
"Já já. Það var helst að höggborinn sem þeir notuðu til að brjóta klöppina hafi skapað hávaða. Reyndar alveg rosalegan hávaða. Frá morgni til kvölds. Í nokkra daga."
Hún vissi ekki almennilega hvað hún átti að segja. Hann hélt áfram.
"Þetta var fallegt grjót. Frá ákveðnu sjónarhorni var það alveg eins og andlit. Andlit greypt í stein. Mjög sérstakt. En það þurfti víst að fara geri ég ráð fyrir. Þið ætlið að gera garð, er það ekki?"
"Jú. Það á að koma pallur og eitthvað fleira."
Hún sneri umræðunni annað.
"Hvað gerirðu?"
"Ég skrifa."
"Enn spennandi. Hvað þá helst?"
"Hitt og þetta. Aðallega er ég að skálda einhverja vitleysu."
"Þú inspírerast kannski af útsýninu," sagði hún óvart. Hún ætlaði engan veginn að ýja að því að hann væri að hnýsast um þau, en hún var óneitanlega fegin því að hafa komið eftir kaffinu og séð með eigin augum hvað hún var berskjölduð bak við stóra gluggana í húsinu sínu.
"Já. Ég geri það. Vissulega." Hún bjóst við að hann bætti einhverju við, eða gæfi til kynna með einhverjum hætti að hann væri að grínast, en hann þagði og breytti ekki svip. Hann hélt á plastpoka og í hann hafði hann sett kaffibaunir.
"Hér eru baunir. Ég er ekki með vél sem malar sjálf eins og þið, en ég kaupi alltaf baunir. Kaffið er miklu betra þannig. Nýmalað."
Hún tók við pokanum og þakkaði fyrir. Hann sagði henni að vera óhrædd við að banka upp á ef hana vanhagaði um eitthvað. Sumt ætti til að gleymast þegar maður stæði í flutningum. Þegar hún lokaði garðhurðinni á eftir sér horfði hún uppeftir og sá að maðurinn var aftur sestur og virtist önnum kafinn. Hvað skrifa svona menn, hugsaði hún. Inni var kyrrt og hljótt. Stelpan virtist ennþá sofa vært.

5. kafli

Ef hann fengi að ráða þá myndu þau eyða öllum jólum í London. Hann hafði aldrei skilið hvað konan átti við með því að það væri svo gott að vera heima með fjölskyldunni á þessum tíma. Hverju væru þau sosum að missa af? Hann hafði þó hingað til látið þetta eftir henni, það var jú hún sem samþykkti að búa með honum úti megnið af árinu. Hann var ánægður með húskaupin. Þannig gátu þau verið meira út af fyrir sig og þurftu ekki að búa hjá tengdó eins og áður. Það breytti því þó ekki að aðfangadagskvöldinu var eytt þar. Það sem hann lagði ekki á sig fyrir konuna sína.

Allar gjafirnar undir trénu, flestar auðvitað merktar dóttur þeirra, voru komnar úr umbúðunum, og tengdamamma hafði lokið jólakortaupplestrinum. Það var ein af þessum leiðindarhefðum sem þurfti að halda. Bunkinn sem safnast hafði saman var dreginn fram og svo var hvert kortið tekið upp, eitt í einu, og lesið upphátt. Þetta gat tekið óratíma, því þótt sjálfum þætti honum tengdaforeldrarnir ekki skemmtilegir var endalaust af fólki sem sendi þeim kveðju um jól. Og svo voru það allar myndirnar af frænkunum og frændunum og "Enn hvað þau eru orðin stór," og "Gvuð, hvað hann er sætur sá litli" og allt það.

Tengdapabbi var nú lagstur í sófa með bók. Konan og tengdamamma sátu í eldhúsinu og spjölluðu. Sú stutta var enn vakandi. Hún sat á stofugólfinu með dúkku sem hún fékk í jólagjöf einhvers staðar frá. Dúkkan gat talað, sagði trekk í trekk, aftur og aftur sömu setningarnar. "Ég elska þig." "Ég er svöng." "Ég er þreytt." "Ég elska þig." "Ég er svöng." "Ég er þreytt." "Ég elska þig." Ótrúlegt hvað þessar saklausu setningar gátu farið að hljóma óhugnanlega þegar þær voru endurteknar í þessum vélræna mónótón. Hann var eirðarlaus. Honum leiddist, hafði aldrei haft gaman af bókarlestri og nú var einhvern veginn ekkert að gera.

Hann var á leiðinni inn á klósett þegar hann greip setningu úr samtali mæðgnanna. Það var tengdó sem talaði:
"Já, það er alltaf gott að eiga góða nágranna..."
Hann hætti við að pissa og steig í staðinn inn í eldhús.
"Nágranna? Hvaða nágranna?"
"Við vorum að tala um nágrannann ykkar. Þennan sem lánaði ykkur kaffi."
"Ég vissi ekki af því. Hver lánaði okkur kaffi?"
"Náunginn í íbúðinni fyrir ofan garðinn. Sagði ég þér ekki frá því? Ég fór til hans og fékk lánað kaffi."
"Nei. Þú sagðir mér ekki frá því. Og?"
"Og ekkert. Hann virkaði bara nokkuð indæll. Benti mér á að setja gluggatjöld fyrir stofugluggann hjá okkur. Það sést svo vel frá glugganum hans inn til okkar. Þar situr hann og skrifar."
"Hvað er hann að skrifa?"
"Ég veit það ekki. Hann sagðist vera að skálda einhverja vitleysu. Já, og svo sagði hann að við værum inspírasjón fyrir hann..." Hún flissaði. Var orðin aðeins kennd af rauðvíninu og virtist ekki kippa sér upp við það að nágranni þeirra væri að gægjast á gluggana þeirra og jafnvel skrifa um það sem hann sá.
"Ég hef séð hann sitja þarna við gluggann. Og satt að segja lýst mér passlega vel á hann. Veistu eitthvað hvað hann heitir?"
"Nei. Við kynntum okkur ekki með nafni. Ætli hann heiti ekki einhverju ættarnafni. Er það ekki dæmigert fyrir svona skáldaspírur. Hann átti alla vega frábært kaffi. Ómalað."

Löngu síðar um kvöldið, þegar heim var komið, og bæði konan og barnið voru komnar í bælið, settist hann við tölvuna og fór á netið. Hann leitaði í þjóðskránni til að athuga hver væri skráður íbúi kjallarans. Samkvæmt hagskýrslum átti enginn heima þar, en á efri hæðinni bjó ungt par með lítið barn. Hann stóð upp og leit út um gluggann. Það var ekkert lífsmark í kjallaranum. Rauð jólasería lýsti í forstofuglugga, annars ekkert ljós, ekkert líf. Jólanótt var gengin í garð.

6. kafli

Ef hann beit eitthvað í sig var hann ekki fús að sleppa takinu. Hann hafði komist jafn langt og raun bar vitni á mikilli þrjósku og leit á hana sem einn af sínum helstu kostum. Og nú vildi hann komast að því hver þessi rithöfundur var, þetta skáld sem sat fyrir honum. Því þetta hafði hann bitið í sig líka: Honum fannst þessi maður sem sat í glugganum fyrir ofan húsið þeirra sitja um sig og fjölskyldu sína, fylgjast með hverri hreyfingu. Á einhvern undarlegan hátt stóð honum ógn af nágrannanum.

Hann gat engan veginn tengt uppnám dóttur sinnar fyrstu nóttina við þennan mann, samt kenndi hann skáldinu um atvikið. Það hljómaði fáranlega en þannig leið honum. Og þegar konan hans talaði um hve vel sæist inn til þeirra frá eldhúsglugganum, stóð honum ekki á sama. Allar búðir voru að sjálfsögðu lokaðar og því fékk hann að láni hjá tengdó gluggatjöld fyrir gluggana, brún að lit, þykk og þung og í engu samræmi við mínímalískan innanhússtílinn sem hann hafði lagt svo mikla áherslu á að fá í gegn. Hann hafði alls ekki hugsað sér að setja eitthvað fyrir þessa glugga, þeir áttu að fá að njóta sín og hleypa tærri birtunni inn í stofuna. En eins og málum var háttað vildi hann vera viss um að þegar dregið væri fyrir, þá væri hann og fjölskyldan út af fyrir sig og í friði fyrir hnýsnum augum fólks í næstu húsum. Konunni fannst þetta óþarfa fyrirhöfn.

"Ég skil ekki alveg þetta stress," sagði hún. "Þetta er ósköp venjulegur maður sem vinnur heima hjá sér, eins og margir í hans stétt og glugginn hans snýr óvart til okkar. Hann er ekkert að horfa á okkur, enda lítið markvert að sjá." Hann stóð þó fast á sínu og hún leyfði honum að hengja gardínurnar upp.

Hann hringdi í kunningja sinn sem vissi allt. Hann hafði áður leitað til þessa sama manns eftir alls kyns upplýsingum og það hafði aldrei staðið á svari. Að þessu sinni snerist fyrirspurnin um nafnið á kjallarabúanum. Eins og ávallt sagði vinurinn: "Gefðu mér 20 mínútur." Og eins og ávallt hringdi síminn hans 20 mínútum síðar.
"Heyrðu. Ég er með þetta. Get reyndar ekki sagt þér mikið. Ekki á svona skömmum tíma. En ég er með nafnið. Eða... listamannsnafnið alla vega. Gaurinn kallar sig Víxil. Og er semsagt rithöfundur."
"Víxill? Hvaða hálfvitaheiti er það?"
"Ég veit ekki... sosum ekkert asnalegra en margt annað sem maður heyrir nú til dags."
"Og hefur eitthvað verið gefið út eftir hann?"
"Það hafa engin stærri forlög gefið hann út nei. En hann hefur sjálfur verið að senda frá sér efni. Það selst nú eitthvað treglega að mér skilst."
"Hvað er hann að skrifa?"
"Þetta eru víst aðallega hrollvekjur... reyndar ekkert venjulegar hrollvekjur að sagt er. Hann á það víst til að fara yfir strikið. Einhvern tíma stóð meira að segja til að banna verk eftir hann og gera það upptækt. Löggan var komin í málið og allt. En þeir fáu sem þekkja eitthvað til þessa manns segja að hann sé ágætis náungi. Algjört ljúfmenni."

Hann þakkaði fyrir sig og lagði á.

7. kafli

Í ræðunni sem hann hélt til að bjóða gesti velkomna, endaði hann á sígildri eftirhermu, lék gamlan yfirmann sem flestir í hópnum þekktu og hafði margoft verið uppspretta að góðum hlátri. Sá gamli var þekktur fyrir tilgerðarlega hógværð sína þrátt fyrir vel þekkt ríkidæmi. Til að ná honum gerði hann sig ögn nefmæltan og um leið dálítið skrækan og skellti dæmigerðu Halldórs Laxness innsogi inn á viðeigandi stöðum.

"Ég býð ykkur semsagt enn og aftur velkomin í þetta litla en vonandi huggulega hreysi okkar hjóna. Þetta er vissulega ósköp ómerkilegt, en ég bið um að þið afsakið mig kæru vinir, takið viljann fram yfir verkið og gerið ykkur veitingarnar að góðu." Leikurinn var nógu sannfærandi til að allir voru með á nótunum og hlógu um leið og þeir skáluðu og hrópuðu fjórfalt húrra fyrir gestgjöfunum. Dæmigerðar tilvitnanir í kallinn flugu með reglulegu millibili allt kvöldið.

Hann hafði hlakkað til kvöldsins og nú leið honum loksins vel. Hann fann hvernig hann slakaði á. Síðustu dagar höfðu verið svo skrýtnir og allt öðruvísi en hann hafði hugsað sér, en nú var hann með sínum bestu vinum og staðráðinn í að leyfa þessari undarlegu líðan að fjúka út um gluggann með vindlareyknum. Þykku gardínurnar voru horfnar því nú var húsið til sýnis og yrði að fá að njóta sín í allri sinni dýrð. Og ekki stóð á lofsöngnum. Allir voru á einu máli um að þetta væri yndislegt hús. Og stofugluggarnir vöktu sérstaka athygli og þóttu vel heppnaðir. Kvöldið leið hratt og svo kom nótt.

"Þarna uppfrá býr einhver helvítis furðufugl. Eitthvert rithöfunda vonnabí." Án þess að hugsa út í það var hann byrjaður að tala um nágrannann. "Sjáiði gluggann þarna. Þar situr hann dag og nótt við tölvu og skrifar á milli þess sem hann glápir hingað niður eftir og fylgist með okkur." Þetta vakti athygli félaganna. Þegar þeir voru yngri og drukku saman hljóp iðulega einhver galsi í hópinn og þeir voru gjarnir á að framkvæma alls kyns vitleysu. Best var ef þeir náðu að toppa fyrri partý með góðum prakkarastrikum. Með tímanum urðu þeir ráðsettari og hittust auk þess mun sjaldnar, en galsinn var þó hvergi nærri horfinn og þegar einhver stakk upp á að þeir færu í heimsókn til kjallarabúans var það samþykkt einróma. Konan hans reyndi að malda í móinn."Látið ekki svona," sagði hún. "Þið farið ekki að banka upp á núna, það er hánótt." En þeir sussuðu á hana og hinar konurnar, sem hristu hlæjandi hausinn yfir kjánaskapnum. "Við lofum að vera stilltir." Og svo voru þeir lagðir af stað og mjökuðust flissandi og pískrandi upp að húsinu fyrir ofan.

Þar virtist enginn vera heima. Þeir bönkuðu en enginn opnaði. "Það er náttulega ekkert mál að komast inn," sagði einn þeirra. "Þessi hurð er svo léleg að hún opnast við örlítinn þrýsting." Án þess að bíða eftir viðbrögðum sýndi viðkomandi hvað hann átti við, hlammaði sér á dyrnar og datt á forstofugólfið. Hinir fylgdu á eftir inn í íbúðina. Þeir opnuðu aðra hurð og stóðu svo allir í lítilli stofu.

Þetta var auðvitað alls ekki skynsamlegt. En hann var ánægður með að vera kominn hingað. "Hvað gerum við nú?" spurði einn af vinum hans. Og hann vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera. "Nú, við finnum tölvuna. Mig langar að vita hvað hann er að skrifa." Íbúðin var pínulítil. Það var þessi stofa sem þeir stóðu í, út frá henni lítill eldhúskrókur, þarna var eitt svefnherbergi, ennþá minna en stofan og lítið baðherbergi. Þetta gat ekki verið erfitt. Þeir hófu leitina og nú virtist skipta litlu máli að fela vegsummerki. Það rann á þá æði. Bækur voru rifnar úr hillum og þeim hent á gólfið, föt rifin úr skápum, skúffur dregnar úr skrifborði og innihaldi þeirra sturtað niður. Þeir hrintu til húsgögnum, veltu við sófanum. Tæmdu ísskápinn, leirtaui og mat var sópað niður úr hillum, allir skápar opnaðir, allt tæmt. Þeir voru orðnir lafmóðir af æsingnum. En engin tölva kom í leitirnar. "Helvítis. Hann hefur tekið hana með sér. Svo ég myndi ekki finna hana," hvæsti hann. Skyndilega heyrðist þrusk fyrir utan og þeir snarþögnuðu og frusu í sporunum. Hurðin inn í forstofu opnaðist hægt.

Þetta var konan hans. Hún stóð agndofa í gættinni.
"Hvað eruð þið að gera?"
"Leita."
"Leita? Að hverju? Hvað eruði búnir að gera?"
"Við erum að leita að tölvunni sem inniheldur allann skítinn sem gaurinn er búinn að vera að skrifa skítinn um ykkur."
Hún átti greinilega ekki til orð.
"Þú ert orðinn alvarlega ruglaður," öskraði hún loks á manninn sinn og rauk út.
Þeir litu hver á annann og þögðu um stund. En á sama tímapunkti, eins og því væri stjórnað, sprungu þeir úr hlátri, eltu konuna út, hölluðu hurðinni á eftir sér og drifu sig aftur niðureftir.