Thursday, June 28, 2007

2. kafli

Hún var í símanum að spjalla við mömmu sína. Stelpan þeirra hafði átt erfitt flug og það var fyrst núna, þar sem þau óku Reykjanesbrautina að hún lognaðist út af í aftursætinu og lá þar eins og skotin. Konan hans hafði varað hann við að gefa henni of mikinn sykur þegar þau biðu í bisness lunganu á Heathrow, sælgætið myndi pottþétt æsa barnið upp og þau ættu allt flugið eftir. Hann hafði þóst taka tillit til þess, en blikkaði dóttur sína í laumi og gaf henni nýjan og nýjan bita þegar konan sá ekki til.

Örvandi áhrifin létu ekki á sér standa. Stelpan varð eins og andsetin þegar þau höfðu komið sér fyrir í vélinni, gat engan veginn setið kyrr alla leiðina heim, öskraði og gólaði, hoppaði og hljóp um algerlega hamslaus. Á endanum voru þau beðin um að færa sig í laus sæti aftur í almenningi, eftir að einn af bisness klassa farþegunum, sem hugðist nota tímann í undirbúning fyrir mikilvægan fund, kvartaði pent yfir hávaðanum. Hann reyndi eins og hann gat að róa dóttur sína en á endanum var það konan hans sem gafst upp og fór með hana aftar í vélina. Þar voru aðeins tvö sæti laus svo hann sat áfram á sínum stað.

“Hvað sagði mamma þín?” Hann var mest hræddur um að einhver annar en hann myndi klikka og missa út úr sér leyndarmálið. Það yrði svo ömurlegt eftir alla vinnuna sem hann hafði lagt í þetta. Það var einmitt sérstaklega tengdamamma sem væri vís til að klúðra þessu. Hann hafði alvarlega hugleitt að segja henni ekki neitt, en hún var farin að undirbúa heljarinnar VELKOMIN HEIM málsverð svo hann neyddist til að láta hana vita að þau kæmu ekki í mat.
"Allt fínt. Hún er búin að elda einhverja veislumáltíð fyrir okkur."
Gat það verið að kellingarbeyglan hefði misskilið hann? Eða var hún miklu betri plottari en hann hafði grunað? Alla vega var ljóst að ef hún var að elda, yrði sá matur ekki étinn fyrr en sem afgangar daginn eftir.

Í stað þess að aka Reykjanesbrautina áfram til Reykjavíkur beygði hann inn í Hafnarfjarðarbæ. Hann átti von á því að hún myndi spyrja hvert þau væru að fara, en af einhverjum ástæðum sagði hún ekki neitt og horfði út um gluggann eins og ekkert væri sjálfsagðra. Vissi hún eitthvað? Vissi hún allt? Hafði mamma hennar sagt eitthvað? Þau óku loks inn litlu götuna þar sem húsið stóð. Hann lagði bílnum og drap á honum. Þá fyrst var eins og konan rankaði við sér.
"Bíddu... hvar erum við?"
"Heima."
Hún horfði spurnaraugum á hann.
"Þetta er smá svona... fyrirfram jólagjöf til þín. Komdu út. Stelpan sefur, ég ætla að sýna þér gjöfina þína."
Hún var engan veginn að ná því sem hann var að segja. Hún opnaði bílhurðina treglega og elti hann hægt upp tröppurnar að útidyrunum.
"Hvað ertu að gera? Hvað er þetta?"
"Bíddu róleg." Hann dró upp lykil, opnaði hurðina og gekk inn. Hún fylgdi honum varlega.
"Þú ert búin að tala svo oft um okkar eigin stað hér heima. Þannig að ég keypti þetta og lét útbúa það að okkar þörfum. Þetta verður heimilið okkar hér á Íslandi." Konan gapti. Hann hafði sannarlega komið henni í opna skjöldu með útspili sínu.

No comments: