Thursday, June 28, 2007

13. kafli

Svona var planið nokkurn veginn: Þetta mátti ekki líta út eins og það var í raun og veru. Ástæðan fyrir því að þau eyddu gamlárskvöldinu heima mátti ekki vera sú að hann ætlaði að bjóða skáldinu í heimsókn, því þá myndi konan sjá í gegnum hann og þá væri hann að svíkja dílinn sem hann var búinn að gera. Þetta varð allt að koma í réttri röð. Hann var staðráðinn í að hafa það huggulegt með þeim mæðgum, en svo rak hann augun í manninn þar sem hann stóð úti í garði og tók sig á tal við hann. Og af einskærri meðaumkun og eiginlega alveg óvart bauð hann honum að vera með þeim í stað þess að hann eyddi gamlárskvöldi einn með sjálfum sér. Það var bara of sorglegt. Enda hafði skáldið tekið boðinu fegins hendi. Hann vissi að hún myndi fyrirgefa honum svo lengi sem hann héldi rétt á spöðunum. Annað kvöld, þegar gesturinn væri kominn í hús, þegar hann væri genginn í gildruna, léti hann svo til skarar skríða. Hann ætlaði að afhjúpa þennan aumingja fyrir framan nefið á henni. Það var kominn tími til að einhver annar en hann yrði niðurlægður. Hann var reiðubúinn að ganga ansi langt til að ná sér niður á þessum vesalingi sem var búinn að gera síðustu daga hans að algjöru helvíti.

Hann ákvað að fletta bókinni sem skáldið færði honum á meðan hann beið eftir mæðgunum. Hann hafði ekki litið í hana fyrr en nú. Á fyrstu blaðsíðunni var lítil mynd af húsi. Eitthvað var búið að eiga við myndina í tölvu, liturinn á henni var sérkennilegur, einhvern veginn undarlega fjólublár og um leið dálítið óhugnanlegur að honum fannst. Á næstu síðu stóð ein setning, eins og tilvitnun í annað verk, sem þó var ekki getið. Þar stóð skáletrað: “Í lok sögunnar er manneskja drepin á hrottafenginn hátt...

Þetta var ósköp hversdagsleg saga, svo látlaus og laus við hvers kyns tilgerð, að hann las hana hratt og örugglega. Hún fjallaði um fjölskyldu, hjón með tvö börn og hund. Maðurinn var læknir, konan hans kennari. Sonurinn var í framhaldsskóla, dóttirin í barnaskóla. Og hundurinn hét Spotti og var labrador. Í upphafi flytur maður í hús sem stendur við hlið fjölskyldunnar. Þessi maður er skáld og situr við glugga við skriftir, og frá þeim glugga sér hann vel inn um stóran stofuglugga fólksins. Í fyrstu taka þau ekki eftir honum en að því kemur að þau átta sig á því að hann er að fylgjast með þeim. Læknirinn tekur þessu ekki nærri sér enda er hann mikið frá vegna vinnu sinnar, en konan hefur áhyggjur af þessu og vill leita til lögreglunnar þar sem hún telur sig skynja skrýtna og vafasama strauma frá þessum nýja nágranna. Í framhaldinu fara ýmsir undarlegir atburðir að eiga sér stað. Hundurinn finnst dauður í garði fjölskyldunnar, með grillgaffal á kafi í hjartanu og skömmu síðar hverfur litla stelpan sporlaust. Hún hafði upplifað mjög óþægilegar draumfarir um nokkurt skeið. Hún finnst ekki aftur. Læknirinn tekur loks sönsum, hann tekur mark á konunni og fer að athuga nánar þennan skrýtna náunga í næsta húsi. Og þá gerist það. Lok sögunnar renna upp og örlög læknisins eru ráðin. Hann er drepinn, og aðferðin gat vissulega talist hrottafengin. Kvöld eitt þegar aðrir fjölskyldumeðlimir koma heim, strákurinn af fótboltaæfingu og konan af miðilsfundi situr hann í sófa inni í stofu nánast óþekkjanlegur eftir meðferð morðingjans. Í kjölfarið gengur lögreglan í málið. Hún bankar upp á hjá skáldinu eftir að eiginkonan vísar þeim þangað. En það er þá horfið og þrátt fyrir ítarlega eftirgrenslan er engin leið að hafa upp á því. Þar lauk sögunni.

Hann henti bókinni frá sér líkt og hún brenndi hann í fingurna og rauk upp úr sófanum. Honum var óglatt. Dró andann djúpt, barðist gegn því að kasta upp. Ég get þetta ekki, hugsaði hann. Ég verð djöfullinn hafi það að játa mig sigraðan.

Í fyrsta sinn hafði hann mætt ofjarli sínum. Hversu klókur sem hann reyndi að vera, reyndist það ekki nóg. Þarna sátu þeir við taflborðið og klukkan tifaði meðan hann hugsaði sig vandlega um, svo lék hann sinn leik og sló niður takkanum sín megin, en á næsta augnabliki kom leikur á móti, klukkan fékk ekki einu sinni að tifa um stund, andstæðingurinn svaraði alltaf að bragði, þurfti engan umhugsunarfrest. Hann hélt hann hefði þetta allt í hendi sér en nú var hann aftur orðinn skíthræddur og hann vildi hætta við þetta allt saman. Þetta plott hans var svo glatað og ömurlegt. Konan og barnið voru væntanleg á hverri stundu. Helst langaði hann að segja henni allt saman, hann langaði að hjúfra sig upp að henni, kjökra í barm hennar, viðurkenna fyrir henni að hann væri búinn að tapa. Tapa leiknum og tapa sjálfum sér. Af hverju var hann aftur orðinn svona lítill og aumur, einmitt nú þegar það var komið kvöld og nóttin í þann veginn að skella á? Það var enginn leikur í stöðunni. Klukkan tifaði. Ég þarf að fá umhugsunarfrest, hvíslaði hann. Ég þarf meiri tíma. Þetta er ekki sanngjarnt. Hann lippaðist niður í gólfið og grét hástöfum. Grét eins og hann hefði aldrei grátið áður.

Það var gott að gráta. Þar sem hann lá með ekka og fargið á brjóstinu orðið léttara, sá hann skýrt næsta leik. Hann myndi halda sig við planið og því næst mæta þeim örlögum sem honum voru ætluð.

No comments: