Thursday, June 28, 2007

10. kafli

Hann var þreyttur og lúinn þegar hann kom heim. Dagurinn var strembinn, mikið að gera, afdrifaríkar ákvarðanir sem þurfti að taka. Vinnan hans snerist ekki einungis um að kaupa eitthvað og selja annað, eins og fáfróðir vitleysingar gáfu oft í skyn. Þetta var spurning um réttar ákvarðanir, að taka rétta stefnu og standa með því sem maður gerði. Mistök gátu kostað háar fjárhæðir, tugi ef ekki hundruðir milljóna.

Inni í stofu hljómaði undurblíð tónlist. Konan hans stóð í eldhúsinu, það var stór pottur á eldavélinni, sem hún hrærði í. "Hæ. Ofsalega er góður ilmur í loftinu." Hún brosti til hans, það var óvenju bjart yfir henni, einhver gleði sem hann hafði ekki orðið var við lengi. "Hvaða tónlist er þetta? Ég hef ekki heyrt hana áður." Hann lagði frá sér töskuna og gekk að græjunum. "Skáldið lánaði mér þetta. Finnst þér þetta ekki fallegt?" Þetta var vissulega dásamleg tónlist en hann ákvað að svara ekki spurningunni. "Hvar er stelpan?" "Úti í garði." Hann gekk að glugganum og sá dóttur sína standa úti og við hlið hennar stóð nágranninn og benti hingað og þangað eins og hann væri að útskýra eitthvað fyrir henni. Hann hélt á logandi sígarettu. "Hann er að reykja fyrir framan barnið," sagði hann og opnaði út. "Það fer nú varla mikið framan í hana þarna úti," sagði konan annars hugar og skar niður grænmeti. "Súpan verður tilbúin bráðum. Ég ákvað að hafa kjötsúpu. Þér finnst hún svo góð."

Hann opnaði út í garð og gekk út. "Góða kvöldið." Dóttir hans sussaði á hann. Svo hvíslaði hún: "Hann er að segja mér sögu." Skáldið leit við. "Ég er að segja dóttur þinni frá draugunum hér í garðinum. Og frá andlitinu sem var hér í grjótinu áður en það var fjarlægt." "Ég veit ekki hvort það sé gáfulegt. Hana er búið að dreyma illa síðan við fluttum inn." Skáldið tók síðasta smókinn af rettunni og henti stubbnum. Hann lagði hönd á öxlina á dótturinni. "Segðu pabba það sem þú sagðir mér." Stelpan var mjög alvörugefin á svip. "Mig dreymdi aftur andlitið í nótt. Andlitið á glugganum. En það var allt í lagi. Af því hann kom inn í herbergið til mín." Hún benti á nágrannann. Hann vissi ekki alveg hvernig hann átti að skilja þetta. Kom hann inn í herbergið til hennar um miðja nótt? Skáldið sá greinilega í svip hans hvernig frásögn dótturinnar kom á hann og hló. "Í draumi. Ég kom til hennar í draumi. Haltu áfram," sagði hann við stelpuna. "Hann kom til mín og huggaði mig og þá var ég ekkert hrædd. Svo fór hann að glugganum og hann sá andlitið líka og hann talaði við það og þá brosti andlitið og svo blikkaði það mig og hvarf." "Merkilegt," sagði pabbi hennar. Mest af öllu langaði hann að ráðast á þennan furðufugl og berja hann. Hann langaði það meira en nokkuð annað. En hann sat á sér og reyndi að kreista fram bros. "Farðu nú inn til mömmu. Ég held hún þurfi hjálp við eldamennskuna." Stelpan hljóp inn í hús og eftir stóðu þeir tveir.

Í fyrsta sinn var hann einn með þessum manni. "Þú skrifar hrollvekjur hef ég heyrt." Skáldið horfði á hann, virti hann fyrir sér hugsi. "Hefurðu heyrt það já?" "Já. Ég frétti líka að þær væru sumar svo rosalegar að það hafi staðið til að banna þær." Skáldið hló. "Já. Það stóð til. Hefurðu lesið eitthvað eftir mig?" "Nei, ég hef bara ekki fundið neitt. Hver gefur þig eiginlega út?" Hann glotti. Þessi maður kallaði sig skáld en af einhverjum ástæðum hafði ekkert almennilegt forlag gefið efnið hans út á bók. Skáldið svaraði ekki spurningunni en sagði í staðinn: "Ég á einmitt eintak af þessari bók sem til stóð að banna. Ég skal finna það og leyfa þér að lesa við tækifæri. Það væri gaman að heyra hvað þér finnst." Svo gekk það af stað áleiðis upp í íbúðina sína. "Ég ætla að fara að næra mig. Konan þín bauð mér reyndar í mat, en ég afþakkaði." Hann vildi ekki sleppa honum. Hann vildi segja honum að láta sig og fjölskyldu sína í friði. Helst af öllu vildi hann segja honum að hypja sig á brott, drepast, það væri best. Hann varð að stinga frá sér, þó ekki væri nema lítið. Finna höggstað. "Hvað er þetta með þessar myndir? Að taka myndir af bláókunnugu fólki? Finnst þér það ekki dálítið pervertískt? Af hverju í ósköpunum varstu að taka myndir af okkur?" Skáldið stoppaði í brekkunni og sneri sér við. Það brosti. "Af því ég ætla að drepa þig á hrottafenginn hátt. Seinna, þegar þú ert búinn að liggja um skeið í gröfinni, þá hef ég myndina til að muna hvernig þú leist út. Maður er svo skelfing fljótur að gleyma. Verði ykkur að góðu." Svo hélt það áfram heim til sín, hvarf inn í íbúðina.

No comments: