Thursday, June 28, 2007

8. kafli

Þegar hún vaknaði var hann farinn úr rúminu. Eftir að hún kom úr kjallaranum um nóttina hafði hún strunsað beina leið upp í herbergi og skellt á eftir sér. Henni var skapi næst að sofa inni í herbergi dótturinnar, sem var í pössun hjá mömmu hennar þessa nótt. Gat ekki hugsað sér að eiga samskipti við manninn sinn, né nokkurn annann, eftir það sem á hafði gengið. Sjónin sem við henni blasti í íbúðinni, maðurinn og vinir hans rjóðir og sveittir af því að róta til í dóti rithöfundarins, allt draslið á gólfinu, hafði gjörsamlega slegið hana út af laginu. Henni varð beinlínis óglatt við tilhugsunina.

Hún hafði heyrt skarkala niðri nokkra stund, meðan fólk beið eftir leigubíl, vandræðalegt hvísl um ástandið. Eftir að síðustu gestirnir kvöddu kom hann upp stigann, opnaði inn til hennar varlega og lokaði hljóðlega á eftir sér.
"Elskan mín. Ég..."
"Ég ræði þetta ekki núna," hafði hún sagt. "Við erum hvorugt í ástandi til að tala um þetta." Hún heyrði hann flækjast í fötunum og eiga í tómu basli með að komast úr þeim. Samviskubitið nagaði hann þó ekki meir en svo að hann var farinn að hrjóta áður en hann lagðist á koddann. Það yrði fróðlegt að sjá hvernig hann yrði þegar hann vaknaði.

Hann sat á slopp í sófanum þegar hún kom niður í stofu. Hélt á kuðluðum gardínum mömmu hennar. Hann brosti til hennar eins og til að tékka á hvort það væri ekki allt í góðu þeirra á milli þrátt fyrir allt.
"Hæ. Ég ætlaði að fara að hengja þær upp aftur en riðaði svo til að ég varð að setjast. Þetta var nú meiri vitleysan í nótt..."
"Þessar gardínur fara ekki aftur upp." Hún gekk til hans og tók þær af honum.
"Nú hættirðu þessari vitleysu. Ertu búinn að gleyma hvað þið félagarnir gerðuð í nótt? Þið rústuðuð íbúðinni hjá honum þarna upp frá. Þú ert gjörsamlega kominn með þennan nágranna okkar á heilann." Hún settist við hlið hans og stundi. Hún var engan veginn búin að ákveða hvernig hún ætlaði að tækla þetta. Eina sem hún vissi var að hún nennti ekki að fara að öskra móðursýkislega og hleypa öllu í háaloft. Hún hafði lært það síðustu ár að slíkt gerði ekkert annað en að fá hann til að öskra á móti, og í framhaldinu rjúka út úr herberginu þar sem rifrildið fór fram. Hún reyndi að róa sig. Mýkja viðmót sitt. Tala móðurlega til hans.
"Ástin mín, þetta er komið gott. Ég fer að hafa áhyggjur af geðheilsu þinni ef þú heldur svona áfram." Hann þagði og virtist hugleiða það sem hún sagði. Hún hélt áfram.
"Þessi maður þarna uppfrá, sem býr í íbúðinni sem þú braust inn í núna í nótt, hefur ekki gert okkur nokkurn skapaðan hlut. Þetta er allt saman ímyndun í þér." Hún strauk um hönd hans. Loks leit hann upp og horfði í augun á henni. Gat mögulega verið að hann væri að berjast við að fara að gráta? Hún hafði séð hann í ýmsu ástandi síðan þau kynntust og stundum hafði hann verið ansi aumur og lítill í sér. En hún hafði aldrei séð hann gráta.
"Ég skal gera díl við þig," sagði hann. "Ég skal hætta að hugsa um þennan mann. Í staðinn látum við eins og ekkert sé. Þú segir ekki frá því hvað gerðist í nótt. Þetta gerðist ekki. Er þetta díll?" Tárin létu á sér standa. Þetta hlaut að vera ímyndun í henni. Hún hafði ekki einu sinni hugsað út í hvort hún myndi segja frá eða ekki. "Það er allt í rúst þarna," sagði hún.
"Við skemmdum ekkert, ég er að segja þér það. Við rusluðum bara til. Er þetta díll?" endurtók hann.
"Allt í lagi," sagði hún og rétti honum gardínurnar. "En þú ferð með þessar aftur til mömmu. Þær fara ekki aftur upp." Hann tók við þeim, treglega þó og kyssti hana á kinnina. Svo varpaði hann öndinni léttar. Eins og þessi samningur við hana væri allt sem hann þurfti á að halda.
"Þá er þetta gleymt og grafið. Hér og nú. Allt þetta rugl. Ég ætla að sækja stelpuna. Kemurðu með?"
"Nei, ég ætla aðeins að sjæna til hérna á meðan."

No comments: