Thursday, June 28, 2007

4. kafli

Það var ekki til kaffi. Á eldhúsbekknum stóð silfurgrá maskína sem átti að hella sjóðheitu og nýmöluðu í bollann hennar, ef hún aðeins ýtti á lítinn takka. En það hafði láðst að kaupa baunir og þrátt fyrir að vel væri liðið á kvöld var hún gjörsamlega að farast úr kaffiþorsta. Maðurinn hennar yrði líklega eitthvað frameftir í vinnunni. Það var ekkert öðruvísi hér en úti. "Það þarf að hafa fyrir því að koma þessu í hús", var hann vanur að segja og hún var fyrir löngu búin að sætta sig við að vera ein heima með stelpuna á kvöldin. Sú stutta svaf uppi. Engin illileg andlit á glugganum að hræða hana nú eins og í martröðinni nóttina áður. Það hafði tekið nokkra stund að róa krakkann, en eftir að þau tóku hana inn til sín og leyfðu henni að liggja á milli, festi hún fljótlega svefn og svaf vært til morguns.

Út um eldhúsgluggann sá hún mann sitja í íbúðinni fyrir ofan garðinn. Hann var greinilega með borð við gluggann, sat þar og virtist vinna á tölvu. Klukkan var orðin dónalega margt, en þessi maður var á fótum. Og hún var jú nýi nágranni hans og gæti kynnt sig um leið og hún fengi lánað kaffi. Þetta tæki enga stund svo hún þurfti ekki að hafa áhyggjur af krakkanum. Hún opnaði hurðina út í garð og gekk yfir freðna moldina. Það var engin dyrabjalla svo hún bankaði. Til dyra kom maður á hennar reki. Ljóshærður með skegg. Þreklega vaxinn.

"Sæll. Hérna... þetta er soldið... ég er nýi nágranni þinn. Bý hérna fyrir neðan."
"Já. Einmitt.”
"Þannig er að ég er bíllaus, dóttir mín er sofnuð og og mig vantar svo kaffi. Ekki geturðu lánað mér í eins og eina lögn?"
Hann sagðist eiga kaffi og bauð henni inn í afar litla en snyrtilega íbúð. Inni var rökkvað, eina ljósið var í eldhúsinu þar sem hann hafði einmitt setið þegar hún kom auga á hann. Á litlu tréborði við gluggann var tölvan sem hann vann á. Úr græjum inni í stofu barst klassísk tónlist á lágum styrk.

Hann fór í hornskápinn til að finna kaffi. Hún gætti þess að líta ekki á skjáinn á tölvunni þótt hana dauðlangaði til þess. Í staðinn var henni litið út um gluggann og sá stofuna sína blasa við. Henni brá.
"Vá. Þú sérð ansi vel inn til okkar."
"Já ég get það, ef ég vil. Þið ættuð kannski að fá ykkur gluggatjöld. Þetta eru stórir gluggar. Fallegur þessi rauði litur á sófasettinu. Er þetta leður?"
"Já, þetta er leður. Held ég. Lítur alla vega þannig út."
"Þetta eru ansi glæsileg híbýli. Ég vinn heima, sit hér við gluggann og hef ekki komist hjá því að sjá hvernig framkvæmdum hefur miðað áfram. Búið að brjóta niður marga veggi. Heilmikil læti."
"Þú hefur vonandi fengið vinnufrið."
"Já já. Það var helst að höggborinn sem þeir notuðu til að brjóta klöppina hafi skapað hávaða. Reyndar alveg rosalegan hávaða. Frá morgni til kvölds. Í nokkra daga."
Hún vissi ekki almennilega hvað hún átti að segja. Hann hélt áfram.
"Þetta var fallegt grjót. Frá ákveðnu sjónarhorni var það alveg eins og andlit. Andlit greypt í stein. Mjög sérstakt. En það þurfti víst að fara geri ég ráð fyrir. Þið ætlið að gera garð, er það ekki?"
"Jú. Það á að koma pallur og eitthvað fleira."
Hún sneri umræðunni annað.
"Hvað gerirðu?"
"Ég skrifa."
"Enn spennandi. Hvað þá helst?"
"Hitt og þetta. Aðallega er ég að skálda einhverja vitleysu."
"Þú inspírerast kannski af útsýninu," sagði hún óvart. Hún ætlaði engan veginn að ýja að því að hann væri að hnýsast um þau, en hún var óneitanlega fegin því að hafa komið eftir kaffinu og séð með eigin augum hvað hún var berskjölduð bak við stóra gluggana í húsinu sínu.
"Já. Ég geri það. Vissulega." Hún bjóst við að hann bætti einhverju við, eða gæfi til kynna með einhverjum hætti að hann væri að grínast, en hann þagði og breytti ekki svip. Hann hélt á plastpoka og í hann hafði hann sett kaffibaunir.
"Hér eru baunir. Ég er ekki með vél sem malar sjálf eins og þið, en ég kaupi alltaf baunir. Kaffið er miklu betra þannig. Nýmalað."
Hún tók við pokanum og þakkaði fyrir. Hann sagði henni að vera óhrædd við að banka upp á ef hana vanhagaði um eitthvað. Sumt ætti til að gleymast þegar maður stæði í flutningum. Þegar hún lokaði garðhurðinni á eftir sér horfði hún uppeftir og sá að maðurinn var aftur sestur og virtist önnum kafinn. Hvað skrifa svona menn, hugsaði hún. Inni var kyrrt og hljótt. Stelpan virtist ennþá sofa vært.

No comments: