Thursday, June 28, 2007

5. kafli

Ef hann fengi að ráða þá myndu þau eyða öllum jólum í London. Hann hafði aldrei skilið hvað konan átti við með því að það væri svo gott að vera heima með fjölskyldunni á þessum tíma. Hverju væru þau sosum að missa af? Hann hafði þó hingað til látið þetta eftir henni, það var jú hún sem samþykkti að búa með honum úti megnið af árinu. Hann var ánægður með húskaupin. Þannig gátu þau verið meira út af fyrir sig og þurftu ekki að búa hjá tengdó eins og áður. Það breytti því þó ekki að aðfangadagskvöldinu var eytt þar. Það sem hann lagði ekki á sig fyrir konuna sína.

Allar gjafirnar undir trénu, flestar auðvitað merktar dóttur þeirra, voru komnar úr umbúðunum, og tengdamamma hafði lokið jólakortaupplestrinum. Það var ein af þessum leiðindarhefðum sem þurfti að halda. Bunkinn sem safnast hafði saman var dreginn fram og svo var hvert kortið tekið upp, eitt í einu, og lesið upphátt. Þetta gat tekið óratíma, því þótt sjálfum þætti honum tengdaforeldrarnir ekki skemmtilegir var endalaust af fólki sem sendi þeim kveðju um jól. Og svo voru það allar myndirnar af frænkunum og frændunum og "Enn hvað þau eru orðin stór," og "Gvuð, hvað hann er sætur sá litli" og allt það.

Tengdapabbi var nú lagstur í sófa með bók. Konan og tengdamamma sátu í eldhúsinu og spjölluðu. Sú stutta var enn vakandi. Hún sat á stofugólfinu með dúkku sem hún fékk í jólagjöf einhvers staðar frá. Dúkkan gat talað, sagði trekk í trekk, aftur og aftur sömu setningarnar. "Ég elska þig." "Ég er svöng." "Ég er þreytt." "Ég elska þig." "Ég er svöng." "Ég er þreytt." "Ég elska þig." Ótrúlegt hvað þessar saklausu setningar gátu farið að hljóma óhugnanlega þegar þær voru endurteknar í þessum vélræna mónótón. Hann var eirðarlaus. Honum leiddist, hafði aldrei haft gaman af bókarlestri og nú var einhvern veginn ekkert að gera.

Hann var á leiðinni inn á klósett þegar hann greip setningu úr samtali mæðgnanna. Það var tengdó sem talaði:
"Já, það er alltaf gott að eiga góða nágranna..."
Hann hætti við að pissa og steig í staðinn inn í eldhús.
"Nágranna? Hvaða nágranna?"
"Við vorum að tala um nágrannann ykkar. Þennan sem lánaði ykkur kaffi."
"Ég vissi ekki af því. Hver lánaði okkur kaffi?"
"Náunginn í íbúðinni fyrir ofan garðinn. Sagði ég þér ekki frá því? Ég fór til hans og fékk lánað kaffi."
"Nei. Þú sagðir mér ekki frá því. Og?"
"Og ekkert. Hann virkaði bara nokkuð indæll. Benti mér á að setja gluggatjöld fyrir stofugluggann hjá okkur. Það sést svo vel frá glugganum hans inn til okkar. Þar situr hann og skrifar."
"Hvað er hann að skrifa?"
"Ég veit það ekki. Hann sagðist vera að skálda einhverja vitleysu. Já, og svo sagði hann að við værum inspírasjón fyrir hann..." Hún flissaði. Var orðin aðeins kennd af rauðvíninu og virtist ekki kippa sér upp við það að nágranni þeirra væri að gægjast á gluggana þeirra og jafnvel skrifa um það sem hann sá.
"Ég hef séð hann sitja þarna við gluggann. Og satt að segja lýst mér passlega vel á hann. Veistu eitthvað hvað hann heitir?"
"Nei. Við kynntum okkur ekki með nafni. Ætli hann heiti ekki einhverju ættarnafni. Er það ekki dæmigert fyrir svona skáldaspírur. Hann átti alla vega frábært kaffi. Ómalað."

Löngu síðar um kvöldið, þegar heim var komið, og bæði konan og barnið voru komnar í bælið, settist hann við tölvuna og fór á netið. Hann leitaði í þjóðskránni til að athuga hver væri skráður íbúi kjallarans. Samkvæmt hagskýrslum átti enginn heima þar, en á efri hæðinni bjó ungt par með lítið barn. Hann stóð upp og leit út um gluggann. Það var ekkert lífsmark í kjallaranum. Rauð jólasería lýsti í forstofuglugga, annars ekkert ljós, ekkert líf. Jólanótt var gengin í garð.

No comments: