Thursday, June 28, 2007

12. kafli

Hann hringdi í konuna úr vinnunni og bar hugmyndina undir hana. Gætti þess hvernig hann orðaði hana, hún varð að hljóma látlaus og eins og ekkert sérstakt lægi þar að baki. Eins og þetta væri hver önnur saklaus hugdetta.

"Ég var að velta því fyrir mér hvort við ættum ekki bara að að vera heima hjá okkur á gamlárskvöld. Bara við tvö og stelpan. Hvað segirðu um það?"

"Já?" Hún hugsaði málið og hann notaði tækifærið og hélt áfram að reyna að sannfæra hana, án þess þó að hljóma örvæntingarfullur.

"Æi já, ég fór bara að pæla. Ég hélt kannski að þetta væri bara gott fyrir okkur. Nú eigum við þetta hús og svona. Svo veistu hvernig þetta verður þegar fríinu lýkur. Brjálað að gera og minna um kvalití stundir." Þetta hlaut að virka á hana. Hún hafði einmitt oftar en ekki kvartað yfir hvað hann var á köflum lítið heima.

"Þetta er ekki bara út af því að þú þolir ekki mömmu?" Hún hló. Hún var að kaupa þetta.
"Alls ekki ástin mín. Mamma þín er mjög fín. Í hófi. Nei, ég var bara að spá í þetta og fannst þetta tilvalið."
Hún sagðist ætla að hringja í foreldrana og athuga hvort þessi breyttu plön myndu skapa einhver vandræði. Stuttu síðar heyrði hann í henni aftur og þetta var ákveðið. Konan hans var greinilega meira en sátt við hugmyndina. Fannst þetta sætt, eins og hún orðaði það.
"Ég fer þá í búð eftir vinnu og kaupi eitthvað gott að borða. Einhverjar óskir?"
"Ég leyfi þér bara að ráða þessu. Treysti þér fullkomlega. Þú virðist vera með það á hreinu hvernig þú vilt hafa þetta. Ég veit að þetta verður yndislegt," svaraði hún. "Þú manst að ég verð ekki heima þegar þú kemur úr vinnunni. Við vinkonurnar ætlum að hittast og borða saman og ég tek stelpuna með mér." Hann mundi það. Hafði einmitt gert ráð fyrir því.

Þegar heim kom var það hans fyrsta verk að athuga hvort maðurinn fyrir ofan væri heima. Það var ljós í íbúðinni en það sat enginn við gluggann. Hvað ætti hann sosum að vera að gera þar þegar við erum ekki heima og ekkert að sjá, hugsaði hann um leið og hann fór með pokana inn í eldhús og gekk frá vörunum sem hann hafði keypt. Það var óskaplega þægilegt að finna fyrir gamla sjálfstraustinu og sigurvissunni aftur. Hann brosti með sjálfum sér þegar hann hugsaði til þess hvað hann var lítill í sér og aumingjalegur þarna um nóttina, líðan sem stafaði eingöngu af ónægum svefni og stressi. Núna rifjaði hann upp það sem skáldið hafði látið út úr sér í garðinum og velti því um leið fyrir sér hvernig mannfíflið vogaði sér að segja annað eins við hann.

Hann gekk upp að húsi nágrannans. Það hafði ekkert verið gert við hurðina síðan þeir brutust inn, hún virtist frekar laus í falsinu og ekki ýkja traust að sjá. Hann bankaði. Það heyrðist umgangur fyrir innan, og því næst var opnað og hann stóð augliti til auglitis við skáldið. Hann hafði ímyndað sér að maðurinn yrði undrandi að sjá hann, en svo virtist sem hann hefði allt eins átt von á honum.
"Sæll vertu."
"Sæll."
"Við hjónin vorum að velta því fyrir okkur, hvort þú værir búin að gera einhver plön fyrir gamlárskvöld. Ef ekki, þá langaði okkur að bjóða þér í mat til okkar."
Skáldið brosti. Þessu gat hann ekki átt von á.
"Þú segir nokkuð. Nei, ég er reyndar ekki með neitt á prjónunum. Hafði bara hugsað mér að vera hér heima. Þakka þér fyrir. Jú, ég þigg það."
"Ekkert vit í að vera einn á slíku kvöldi." Hann brosti. Það er nákvæmlega ekkert á bak við þetta annað en takmarkalaus góðmennska mín og náungakærleikur. Trúðu því. Við skulum sjá hver leikur leikinn betur, hugsaði hann. Nágranninn virtist trúa hverju orði og sannfærandi góðlátlegum svipnum.
"Við sjáum þig þá annað kvöld. Þú þarft ekki að koma með neitt nema sjálfan þig."

Hann gekk frá hurðinni og ætlaði að halda af stað niður eftir.
"Heyrðu." Skáldið stöðvaði hann. "Ég fann bókina. Þessa sem við töluðum um."
"Já. Þessa sem átti að banna?"
Skáldið var farið inn til sín og kom til baka með bókina.
"Lestu þessa. Væri gaman að vita hvað þér finnst." Hann tók við bókinni og þeir kvöddust.

No comments: