Thursday, June 28, 2007

1. kafli

Hann hringdi í verktakann til að athuga hvernig málum miðaði.
"Vel", sagði verktakinn. "Þessir Pólverjar eru alveg ótrúlegir. Eftir að þeir mættu á svæðið hefur þetta rokgengið."
Hann beið með að segja frá því að hann væri kominn til landsins, hefði lent í Keflavík kvöldið áður. Fyrst vildi hann fá mjög nákvæmar upplýsingar um húsið og hversu raunhæft væri að það yrði tilbúið, með öllum þeim breytingum sem hann hafði farið fram á, á tilsettum tíma. Hann spurði um hitt og þetta og fékk svör sem hann ætlaði að sannreyna þegar hann mætti á svæðið skömmu síðar. Ef eitthvað af því sem verktakinn sagði stóðst ekki fengi hann að fjúka. Hann lauk samtalinu með því að segja: "Heyrðu, þetta er flott. Við sjáumst svo bara eftir smá."
"Eftir smá?"
"Já. Ég er á landinu. Er bara rétt ókominn til þín." Svo lagði hann á. Jeppinn ók sem leið lá í gegnum Garðabæ áleiðis í Hafnarfjörð.

Þetta leit nokkurn veginn út eins og um var rætt, engin ástæða að reka neinn. Ekki enn að minnsta kosti. Hann gekk að stóra stofuglugganum og leit út. Þar var ennþá ekkert nema mold og drulla og í jaðri eignarinnar stóð lítil grafa með áföstum höggbor. Þarna var klöpp sem þurfti að mölva. Einhvern tíma, sem allra fyrst, yrði þetta glæsilegur garður.
"Af hverju er enginn sestur upp í skrýmslið og byrjaður að höggva?"
"Það er enn of dimmt. Og svo höfum við fengið kvartanir frá nágrönnum og megum ekki byrja fyrr en eftir 10. Það eru víst ungabörn í grenndinni."
Honum var litið upp í húsið sem stóð fyrir ofan. Þar í kjallaraglugga sat náungi og pikkaði á tölvu. Sá leit upp og þeir horfðust í augu um stund. Því næst leit kjallarabúinn aftur á skjáinn sinn og hélt áfram að skrifa.
"Skyldi helvítið vera að skrifa um mig? Ég má ekki láta mitt fólk vinna í garðinum mínum og höggva í sundur helvítis klöppina svo hann fái frið til að skrifa einhvern óþverra um mig. Honum finnst örugglega lítið til mín koma. Húkir í þessari kjallaraholu og skrifar. Blótar mér í sand og ösku, kallar mig nýríkan skíthæl. Ef hann bara vissi. Ef hann bara vissi..."

Nú styttist óðum í jólin og þá fengi konan að afhjúpa pakkann, þessa veglegu jólagjöf sem hann ætlaði að gefa henni. Ennþá vissi hún ekki neitt. Hún hafði oft talað um hvað það væri gott að hafa sitt eigið afdrep þegar þau dveldu á klakanum. Sú yrði aldeilis hissa. Hann gekk frá glugganum, tók upp símann. Dagurinn var byrjaður og hann hafði ekki meiri tíma í hangs.
"Ég treysti þér fyrir því að allt sé tilbúið þann tuttugasta. Við komum heim þá og brunum beint af vellinum hingað. Þá verðið þið að vera farnir með ykkar dót, búið að þrífa pleisið og mubblur komnar á sinn stað. Er það ekki málið?" Hann klappaði verktakanum á öxlina.
"Jú, það hefst alveg. Ég hef séð það svartara en þetta, við náum þessu alveg á þessum tíma."
"Það er gott. Mjög gott."
Svo var hann rokinn.

1 comment:

ingveldur said...

Húrra fyrir endurkomu Nágrannans!