
Það var engin leið að sofna. Hann lá í rúminu og starði upp í loftið. Við hlið hans var konan í fastasvefni. Eins og ekkert væri að. Enda leit hún allt öðrum augum á málið. Fyrir henni var allt með felldu. Hún hafði ekki séð framan í skáldið þegar hann lét þessi orð falla. Hún sá ekki myrk augu hans. Svona leit enginn út sem gerði að gamni sínu. Það var skýringin sem hún hafði gefið. Þetta var einungis grín. Hún skellti upp úr þegar hann sagði henni hvað þeim fór á milli.
"Hann er meiri húmoristi en ég hélt," sagði hún.
"Ég get ekki sagt að mér finnist þetta sérstaklega fyndið," sagði hann.
"Láttu ekki svona. Hann skynjar það bara hvað þú ert nojaður í kringum hann. Þú ert allur á nálum. Þú ætlar ekki að segja mér að þú trúir því í alvöru að hann ætli að drepa þig? Á hrottalegan hátt!" Hún skellti aftur upp úr.
"Nei, ég er ekkert að segja það. Ég er að segja að þessi maður er ekki heill á geði. Maður slengir ekki svona löguðu framan í einhvern sem maður þekkir ekki neitt!"
Hann var ekki að segja satt. Hann fann fyrir áður óþekktum ótta – hann, sem aldrei var hræddur – og satt best að segja trúði hann þessum náunga til alls. En það þýddi greinilega ekkert að tala um þetta við hana. Til þess voru hugmyndir hans of óáþreifanlegar, of fjarstæðukenndar. Hann kláraði af disknum og stóð því næst upp og fór með hann í vaskinn.
"Þú manst dílinn ástin mín," sagði hún. "Þú ert ekkert kominn í ruglið aftur út af nágrannanum, er það?"
Það var honum þvert um geð að láta eins og allt væri í lagi, en það var lítið annað að gera, og ekki ætlaði hann að fara að haga sér eins og helvítis tapari. Nei, hann var sko langt frá því að vera í ruglinu. "Ég er bara dálítið þreyttur. Það er allt og sumt." Hann gekk til hennar og kyssti hana. "Takk fyrir súpuna. Hún var svakalega góð."
Seinna um kvöldið, þegar stelpan var sofnuð, komu þau sér fyrir í sófanum og horfðu á einhverja vellu í sjónvarpinu. Þau lágu þétt saman undir teppi og hann fann fljótlega að konan hans var til í eitthvað meira æsandi og skemmtilegra en sjónvarpsgláp. Hún lét vel að honum, strauk honum blíðlega undir teppinu og var fyrr en varði kominn í klofið á honum að kanna stemminguna þar. Hún átti það alveg til að eiga frumkvæðið, en það var ekki algengt og þegar það gerðist tók hann því fagnandi. Nú bar hins vegar svo við að hann var ekki spenntur í að leika. Þaðan sem hann sat gat hann séð út um gluggann, hann sá ekki upp í íbúðina fyrir ofan, en hann ímyndaði sér að þar í glugga sæti maður og fylgdist með hverri hreyfingu.
"Mér finnst þetta ekki skemmtileg mynd," hvíslaði hún í eyra hans og renndi niður buxnaklaufinni. Þau kysstust og hann reyndi af fremsta megni að einbeita sér að því sem hún var að koma í kring. "Eigum við að koma upp í herbergi," sagði hann lágt. Hún var farin að anda þungt. "Nei, verum hér," hvíslaði hún. "Gerum það hérna." Þau héldu áfram en hvernig sem hann reyndi, urðu það lítið annað en máttlausir tilburðir. Af hverju sendi hún hann með gardínurnar til baka? Og nú vildi hún gera það hér fyrir opnum tjöldum. "Ástin mín, ertu til í að koma upp? Mér finnst sófinn ekki nógu þægilegur." Hún var orðin mjög æst. Hún reis hratt upp og hvæsti á hann. "Andskotinn. Komdu þá." Hún reif í hann og kyssti hann harkalega, dró hann með sér út úr stofunni, þau kysstust upp stigann á milli þess sem þau rifu hvort annað úr einni flík af annarri.
Uppi í herbergi átti allt að verða öðruvísi. Hún lá undir honum og iðaði í skinninu, en hann gat með engu móti farið með henni þangað sem hún vildi fara. Hausinn á honum gat ekki sleppt takinu af nágrannanum, horfandi á hann þessu augnaráði sem hann sendi honum fyrr um kvöldið. Innst inni vonaði hann að dóttir hans færi að gráta í hinu herberginu og bjargaði honum úr þessari raun. En það var víst ekki á það treystandi. Ef eitthvað bjátaði á var skáldið mætt til hennar í draumi að sefa hana og hugga.
"Það er ekki einu sinni komið blóð í hann," sagði konan hans hissa. Hann var ekki vanur að bregðast henni á þessu sviði.
"Ég skil þetta ekki," sagði hann og fór ofan af henni. "Þetta var reyndar mjög töff dagur í vinnunni. Ég er kannski ekki búinn að kúpla mig alveg frá því öllu."
"Þú ert nú yfirleitt bestur þegar þú ert búinn að eiga töff daga í vinnunni." Hún virtist ekki vera reið, aðeins undrandi. "Ertu viss um að nágrann..."
"Já, ég er viss. Þetta hefur ekkert með nágrannann að gera." Hann þoldi ekki að tapa. Að tapa var það versta sem hann gat hugsað sér. Frekar en að tapa lét hann niðurlæginguna yfir sig ganga, lét konuna segja huggandi: "Þetta kemur víst fyrir hjá mjög mörgum ástin mín. Því oftar sem þið verðið eldri hef ég heyrt. En þú þarft ekkert að hafa of miklar áhyggjur. Þú ert nú ekki það gamall." Hún var sofnuð skömmu síðar.
Og nú var langt liðið á nóttina og hann lá enn glaðvakandi og starði upp í loftið. Ég verð djöfullinn hafi það að gera eitthvað, hugsaði hann. Ég verð að ná honum áður en hann nær mér.
No comments:
Post a Comment