Thursday, June 28, 2007

18. kafli

Jeppinn brunaði eftir Reykjanesbrautinni. Hann hafði hringt nokkur símtöl og komið því í kring að þau fengu flug út strax á nýársdag. Tengdamamma var að sjálfsögðu ekki glöð þegar hún heyrði um þessa skyndilegu brottför, en þetta var ekki í fyrsta skipti sem þau þurftu að breyta plönum vegna vinnunnar hans. Sú gamla hafði stungið upp á að dóttir hennar og barnabarn yrðu eftir og færu einhvern tíma seinna. Þeim lá varla á að drífa sig þótt hann þyrfti að fara. En hún sagðist vilja fara með honum. Eyða fyrstu dögum ársins með manninum sínum.

Dóttir þeirra sat glaðvakandi í aftursætinu og horfði út um gluggann á hraunið. Hún hafði varla sagt orð síðan hún vaknaði. Konan leit aftur í. Nú var kominn tími til að útskýra.
"Ég hitti nágrannann okkar áður en við fórum. Hann bað kærlega að heilsa þér, sagði að þú værir skemmtileg stelpa." Hún leit á manninn sinn. Einhvern veginn svona höfðu þau ákveðið að hafa þetta. Svo hélt hún áfram: "Þetta sem gerðist í stofunni í gær... það var bara draumur. Þú veist að mamma myndi aldrei gera neitt ljótt við neinn."
Stelpan horfði á mömmu sína og þagði. Eins og hún væri að melta þessi orð hennar. Svo svaraði hún: "Ég veit að hann er ekki dáinn. Hann kom inn í herbergið til mín í nótt. Hann sat hjá mér og talaði við mig."
Hjónin litu hvort á annað. "Og hvað sagði hann?"
"Hann sagði að hann myndi bíða eftir mér, bíða þar til við kæmum aftur í húsið okkar."
Konan leit skelfd á manninn sinn.
"Þetta er allt í lagi," hvíslaði hann. "Húsið fer á sölu á morgun. Við snúum aldrei þangað aftur..."

Það var frekar rólegt á Leifsstöð, þar sem þau sátu í bisnesslunganu og biðu eftir að vera kölluð inn í vél. Konan gaf manninum auga þar sem hann var að gefa stelpunni súkkulaði. Barnið, sem hafði nýlokið við að klára stóra kökusneið, mátti alls ekki við öllum þessum sætindum svona rétt fyrir flugið.
"Ekki allann þennan sykur. Þú veist hvernig hún verður." Hann kinkaði kolli, þóttist taka tillit til þess sem hún sagði, en blikkaði dóttur sína í laumi og gaf henni nýjan bita þegar konan sá ekki til.

No comments: