Thursday, June 28, 2007

17. kafli

Hún fór með dóttur þeirra upp og á meðan sótti hann skóflu í skottið á bílnum. Hún leiddi barnið þögul upp stigann. Henni datt ekkert í hug til að segja. Til þess var hausinn of þungur. Þetta var allt svo fjarstæðukennt. Barnið þagði líka, spurði engra spurninga. Þegar í herbergið var komið lagðist sú litla upp í rúmið sitt og faðmaði að sér dúkkuna sem þar lá. Móðir hennar breiddi yfir hana sængina og kyssti hana á ennið. Hún gekk að hurðinni. "Góða nótt elsku mamma mín," heyrðist úr rúminu. Hún horfði á dóttur sína, reyndi að brosa og fór svo aftur niður.

Líkið lá á gólfinu, hnífurinn enn á sínum stað. Úti í garði stóð maðurinn hennar í sparifötunum og hamaðist við að grafa gröf. Hann hafði farið úr jakkanum og brett ermarnar á skyrtunni upp fyrir olnboga. Buxurnar voru þaktar mold. Hann sem hafði alltaf verið frekar pjattaður, virtist á þessari stundu ekki hugsa um hvernig fötin færu í þessum atgangi, nú reið á að grafa nógu djúpa holu. Það birti reglulega til í garðinum af öllum flugeldunum á himninum, nú nálgaðist miðnætti og sprengjugnírinn varð hærri og hærri, himininn þakinn öllum regnbogans litum. Birtan í garðinum var ævintýrakennd og falleg.

Hún var alveg róleg þar sem hún stóð. Hún leit niður á skáldið.
"Þetta er bara skáldsaga. Þú sagðir það sjálfur." En þótt þetta væri bara skáldsaga, svaraði skáldið ekki og lá jafndautt af stungunum og áður. "Ef þetta er bara skáldsaga, er ég þá ekki bara skálduð persóna? Og ef ég er bara skálduð persóna..." Hún kraup hjá líkinu og hvíslaði í eyra þess: "Get ég þá ekki bara gert það sem mér dettur í hug?" Hún hrökk upp við bankið á stofuhurðina. Maðurinn hennar stóð þar stjarfur og horfði á hana. "Opnaðu." Hún horfði á hann þar sem hann stóð. Svitinn bogaði af andliti hans. Hún stóð varlega upp, gekk að hurðinni og opnaði.
"Hvern djöfulinn varstu að gera?"
"Gera? Hvað meinarðu?"
"Þarna hjá líkinu. Varstu að kyssa helvítis líkið?"
Hún fór að hlæja. "Nei, ég var bara að skoða það. Ég hef aldrei séð svona lík áður."
"Gröfin er tilbúin. Ég fann góðan stað, þar sem klöppin var áður en við brutum hana upp. Þar var jörðin hæfilega mjúk. En þú þarft að hjálpa mér."

Saman drógu þau nágrannann út úr húsinu, inn í garðinn og sem leið lá að holunni sem beið þar eftir honum. Skáldið var þungt og þau þurftu að taka á öllu sem þau áttu. Að lokum komu þau að gröfinni og veltu líkinu ofan í. Þau stóðu um stund og horfðu á það þar sem það lá. Í fjarska heyrðust kirkjuklukkur hringja inn nýtt ár.
"Gleðilegt nýtt ár," sagði hún og kyssti manninn sinn.
"Gleðilegt ár." Hann faðmaði hana að sér. Það var langt síðan þau höfðu kysst hvort annað jafn heitt og innilega.
"Hvað eigum við að segja stelpunni?" spurði hann.
"Þetta er bara skáldsaga," svaraði hún. "Og skáldsögur eru eins og draumar. Þær gerast ekki í alvöru. Við segjum henni að þetta hafi allt saman verið draumur."
Hún strauk honum blíðlega um vangann.
"Ég ætla að grafa yfir hann sem fyrst," sagði hann.
"Ég býð eftir þér inni. Mig langar í þig. Gætirðu hugsað þér að taka mig á sófanum núna þegar enginn er til að horfa á okkur?"
Hann brosti og hóf moksturinn en hún gekk hægum skrefum aftur inn í húsið.

No comments: