Thursday, June 28, 2007

7. kafli

Í ræðunni sem hann hélt til að bjóða gesti velkomna, endaði hann á sígildri eftirhermu, lék gamlan yfirmann sem flestir í hópnum þekktu og hafði margoft verið uppspretta að góðum hlátri. Sá gamli var þekktur fyrir tilgerðarlega hógværð sína þrátt fyrir vel þekkt ríkidæmi. Til að ná honum gerði hann sig ögn nefmæltan og um leið dálítið skrækan og skellti dæmigerðu Halldórs Laxness innsogi inn á viðeigandi stöðum.

"Ég býð ykkur semsagt enn og aftur velkomin í þetta litla en vonandi huggulega hreysi okkar hjóna. Þetta er vissulega ósköp ómerkilegt, en ég bið um að þið afsakið mig kæru vinir, takið viljann fram yfir verkið og gerið ykkur veitingarnar að góðu." Leikurinn var nógu sannfærandi til að allir voru með á nótunum og hlógu um leið og þeir skáluðu og hrópuðu fjórfalt húrra fyrir gestgjöfunum. Dæmigerðar tilvitnanir í kallinn flugu með reglulegu millibili allt kvöldið.

Hann hafði hlakkað til kvöldsins og nú leið honum loksins vel. Hann fann hvernig hann slakaði á. Síðustu dagar höfðu verið svo skrýtnir og allt öðruvísi en hann hafði hugsað sér, en nú var hann með sínum bestu vinum og staðráðinn í að leyfa þessari undarlegu líðan að fjúka út um gluggann með vindlareyknum. Þykku gardínurnar voru horfnar því nú var húsið til sýnis og yrði að fá að njóta sín í allri sinni dýrð. Og ekki stóð á lofsöngnum. Allir voru á einu máli um að þetta væri yndislegt hús. Og stofugluggarnir vöktu sérstaka athygli og þóttu vel heppnaðir. Kvöldið leið hratt og svo kom nótt.

"Þarna uppfrá býr einhver helvítis furðufugl. Eitthvert rithöfunda vonnabí." Án þess að hugsa út í það var hann byrjaður að tala um nágrannann. "Sjáiði gluggann þarna. Þar situr hann dag og nótt við tölvu og skrifar á milli þess sem hann glápir hingað niður eftir og fylgist með okkur." Þetta vakti athygli félaganna. Þegar þeir voru yngri og drukku saman hljóp iðulega einhver galsi í hópinn og þeir voru gjarnir á að framkvæma alls kyns vitleysu. Best var ef þeir náðu að toppa fyrri partý með góðum prakkarastrikum. Með tímanum urðu þeir ráðsettari og hittust auk þess mun sjaldnar, en galsinn var þó hvergi nærri horfinn og þegar einhver stakk upp á að þeir færu í heimsókn til kjallarabúans var það samþykkt einróma. Konan hans reyndi að malda í móinn."Látið ekki svona," sagði hún. "Þið farið ekki að banka upp á núna, það er hánótt." En þeir sussuðu á hana og hinar konurnar, sem hristu hlæjandi hausinn yfir kjánaskapnum. "Við lofum að vera stilltir." Og svo voru þeir lagðir af stað og mjökuðust flissandi og pískrandi upp að húsinu fyrir ofan.

Þar virtist enginn vera heima. Þeir bönkuðu en enginn opnaði. "Það er náttulega ekkert mál að komast inn," sagði einn þeirra. "Þessi hurð er svo léleg að hún opnast við örlítinn þrýsting." Án þess að bíða eftir viðbrögðum sýndi viðkomandi hvað hann átti við, hlammaði sér á dyrnar og datt á forstofugólfið. Hinir fylgdu á eftir inn í íbúðina. Þeir opnuðu aðra hurð og stóðu svo allir í lítilli stofu.

Þetta var auðvitað alls ekki skynsamlegt. En hann var ánægður með að vera kominn hingað. "Hvað gerum við nú?" spurði einn af vinum hans. Og hann vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera. "Nú, við finnum tölvuna. Mig langar að vita hvað hann er að skrifa." Íbúðin var pínulítil. Það var þessi stofa sem þeir stóðu í, út frá henni lítill eldhúskrókur, þarna var eitt svefnherbergi, ennþá minna en stofan og lítið baðherbergi. Þetta gat ekki verið erfitt. Þeir hófu leitina og nú virtist skipta litlu máli að fela vegsummerki. Það rann á þá æði. Bækur voru rifnar úr hillum og þeim hent á gólfið, föt rifin úr skápum, skúffur dregnar úr skrifborði og innihaldi þeirra sturtað niður. Þeir hrintu til húsgögnum, veltu við sófanum. Tæmdu ísskápinn, leirtaui og mat var sópað niður úr hillum, allir skápar opnaðir, allt tæmt. Þeir voru orðnir lafmóðir af æsingnum. En engin tölva kom í leitirnar. "Helvítis. Hann hefur tekið hana með sér. Svo ég myndi ekki finna hana," hvæsti hann. Skyndilega heyrðist þrusk fyrir utan og þeir snarþögnuðu og frusu í sporunum. Hurðin inn í forstofu opnaðist hægt.

Þetta var konan hans. Hún stóð agndofa í gættinni.
"Hvað eruð þið að gera?"
"Leita."
"Leita? Að hverju? Hvað eruði búnir að gera?"
"Við erum að leita að tölvunni sem inniheldur allann skítinn sem gaurinn er búinn að vera að skrifa skítinn um ykkur."
Hún átti greinilega ekki til orð.
"Þú ert orðinn alvarlega ruglaður," öskraði hún loks á manninn sinn og rauk út.
Þeir litu hver á annann og þögðu um stund. En á sama tímapunkti, eins og því væri stjórnað, sprungu þeir úr hlátri, eltu konuna út, hölluðu hurðinni á eftir sér og drifu sig aftur niðureftir.

No comments: